Samningar undirritaðir í Sviss

Ingibjörg Sólrún undirritaði samkomulagið fyrir Íslands hönd í Sviss í …
Ingibjörg Sólrún undirritaði samkomulagið fyrir Íslands hönd í Sviss í dag. Árvakur/Frikki

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra undirritaði í dag fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli EFTA ríkjanna og Kanada. Undirritunin fór fram í Davos í Sviss.

Fram kemur í fréttatilkynningu að samningurinn muni öðlast gildi og koma til framkvæmda þegar hann hefur verið fullgiltur af EFTA ríkjunum og Kanada. Utanríkisráðherra hefur hvatt til þess að fullgildingarferlinu ljúki sem fyrst.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kanada nær til vöruviðskipta og
samkvæmt honum verður full fríverslun með íslenskar iðnaðarvörur frá
gildistöku. Í samningnum eru ákvæði um að taka upp viðræður um þjónustuviðskipti innan þriggja ára.

Samhliða fríverslunarsamningnum gerðu EFTA-ríkin tvíhliða landbúnaðarsamninga við Kanada, sem eru sams konar og aðrir samningar sem gerðir hafa verið í tengslum við fyrri
fríverslunarsamninga.

Samningurinn er sagður vera hagstæður fyrir Ísland. Hann hafi í för með sér niðurfellingu tolla á öllum iðnaðarvörum og ýmsum öðrum vörum sem Ísland framleiðir og flytur út. Sem dæmi megi nefna sjávar- og landbúnaðarafurðir, útivistarfatnað, fiskikör og aðrar vörur úr plasti, vogir, vélar og tæki. Í staðinn veitir Ísland Kanada tollfrjálsan aðgang fyrir iðnaðarvörur og ákveðnar landbúnaðarvörur.

Samningurinn mun liðka fyrir enn frekari útrás íslenskra fyrirtækja á Kanadamarkað. Í því sambandi má geta að á síðasta ári var áritaður loftferðasamningur milli ríkjanna, sem öðlaðist gildi frá sama tíma. Samningurinn veitir íslenskum flugrekendum mjög víðtæk réttindi til áætlunarflugs með farþega, farangur, farm og póst til Kanada, millilendingar og áfangastaða utan Kanada.

Ennfremur undirritaði utanríkisráðherra í dag fyrir Íslands hönd
yfirlýsingu milli EFTA ríkjanna og Indlands um að hefja fríverslunarviðræður milli ríkjanna. Á síðasta ári luku EFTA ríkin og Indland könnunarviðræðum þar sem niðurstaðan var sú að mælt var með því að hefja fríverslunarviðræður milli ríkjanna sem nái bæði til viðskipta með vörur og þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert