Vilja íbúðabyggð í Vatnsmýri

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík og formaður borgarráðs, …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík og formaður borgarráðs, ræddi borgarmál á Hótel Sögu í dag. Árvakur/G.Rúnar

"Það er mín eindregna skoðun að við eigum að byggja í Vatnsmýrinni. Þar á að vera íbúðabyggð í framtíðinni," sagði Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi á fundi sjálfstæðismanna í Reykjavík um borgarmálefni.  Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi lýsti sömu skoðun á fundinum.

Gísli Marteinn sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri ábyrgur flokkur og hann tæki ekki ákvörðun um að flytja flugvöllinn fyrr en fyrir lægi hvert hann færi. Á þessu kjörtímabili yrði unnið að því að kanna hvaða lausnir væru tækar varðandi annað flugvallarstæði.

"Það að byggja í Vatnsmýrinni er einfaldlega stærsta umhverfismálið í borginni," sagði Gísli Marteinn og benti á að 80% starfa  í borginni væru í vestari hluta borgarinnar. Í dag væri fólk að keyra úr austari hluta borgarinnar til vinnu, en með því að byggja í Vatnsmýrinni drægi úr þessum fólksflutningum kvölds og morgna. Að setja 15 þúsund manna byggð austast í borginni yki á mengun, en með því að staðsetja hana í Vatnsmýrinni dragi úr mengun.

"Við Ólafur F. Magnússon erum ekki sammála í flugvallarmálinu. Við erum ekkert að þykjast vera sammála. Hann telur að flugvöllurinn eigi að vera þarna um alla framtíð, en hann ekki. Við í þessum hópi [borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins] höfum sagt það öll, að flugvöllurinn eigi ekki að vera í Vatnsmýrinni til eilífðarnóns," sagði Gísli Marteinn. 

"Við teljum að í langri framtíð verði Vatnsmýrin mjög kjörið svæði fyrir Reykvíkinga. Við áttum okkur á því að til ársins 2024 er flugvöllurinn á þessu aðalskipulagi þannig að það er ekki að gerast á þessu kjörtímabili að við náum að taka þessa ákvörðun. Það verðum við að horfast í augu við, en það þýðir ekki að sú hugsjón okkar að þarna geti orðið mjög góð og framsækin íbúðabyggð fyrir Reykjavíkinga, að hún hafi horfið," sagði Hanna Birna.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði á fundinum að unnið yrði að því á þessu kjörtímabili að kanna önnur flugvallarstæði. Sjálfstæðisflokkurinn væri þeirrar skoðunar að flugvöllur ætti að vera í Reykjavík. Það væri umhverfisslys að staðsetja hann á Lönguskerjum, en Hólmsheiði kæmi vel til greina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert