Skrifað undir jarðvarmasamstarf

Emilio Rappacicioli orkumálaráðherra Níkaragv a á fundi í Orkugarði í …
Emilio Rappacicioli orkumálaráðherra Níkaragv a á fundi í Orkugarði í morgun.

Emilio Rappaccioli orkumálaráðherra Níkaragva skrifar í dag undir samstarfssamning við Þróunarsamvinnustofnun Íslands um fimm ára þróunarverkefni á sviði jarðhitamála. Verkefnið felur í sér uppbyggingu mannauðs til að nýta jarðvarma í Níkaragva en íslenskir vísindamenn koma til með að veita stjórnvöldum þar sérþekkingu og þjálfun í þessum mikilvæga málaflokki. Ráðherrann er staddur hér á landi í boði ÞSSÍ, samkvæmt tilkynningu.

Í heimsókninni hingað til lands hyggst ráðherrann almennt kynna sér stöðu jarðvarmamála á Íslandi og heimsækja stofnanir og fyrirtæki sem að þeim málum koma. Einnig mun ráðherrann eiga fundi með íslenskum útrásarfyrirtækjum á þessu sviði, ENEX, Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy.

Með ráðherranum í för eru Magdalena Perez, yfirmaður jarðhitamála í ráðuneytinu, og Javier Chamorro yfirmaður Fjárfestingastofu Níkaragva, PRONICARAGUA, en sú stofnun hefur það hlutverk að laða að fjárfesta til landsins og greiða götu þeirra.

Rapaccioli átti í morgun fund í Orkugarði þar sem hann kynnti stöðu orkumála í Níkaragva og sat fyrir svörum. Síðdegis kynnir ráðherrann sér starfsemi Orkustofnunar, Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og starfsemi Íslenskra Orkurannsókna en sérfræðingar ÍSOR munu að mestu leyti annast jarðvarmaverkefnið fyrir hönd Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Verkefnið er eitt af stærstu verkefnum ÞSSÍ og kostnaður metinn á rúmar fjórar milljónir Bandaríkjadala.

Ráðherrann hittir starfsbróður sinn, Össur Skarphéðinsson, á fundi á miðvikudag áður en hann heldur af landi brott, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert