Al Jazeera sýnir viðtal við Ólaf Ragnar

Frá útsendingarherbergi Al-Jazeera í Katar.
Frá útsendingarherbergi Al-Jazeera í Katar. Reuters

Arabíska sjónvarpsstöðin Al Jazeera mun á laugardaginn senda út hálftíma viðræðuþátt með forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni. Þátturinn verður sendur út á arabískri rás stöðvarinnar klukkan 14 að íslenskum tíma.

Þátturinn var tekinn upp í höfuðstöðvum sjónvarpsstöðvarinnar í Doha í Katar við lok opinberrar heimsóknar forseta Íslands til landsins í síðustu viku. 

Áætlað er að rúmlega 50 miljónir manna horfi reglulega á hina arabísku útgáfu stöðvarinnar. Ensk útgáfa hennar hefur á skömmum tíma orðið ásamt CNN og BBC ein áhrifaríkasta sjónvarpsstöð í veröldinni en hún sést m.a. í breiðvarpi Símans.

Samkvæmt upplýsingum frá forsetaskrifstofunni er í viðtalinu við Ólaf Ragnar m.a. fjallað um loftslagsbreytingar, einkum á norðurslóðum, nauðsyn nýrrar orkustefnu sem leggur áherslu á nýtingu hreinna orkulinda, framboð Íslands til öryggisráðs SÞ og þróun mála í Miðausturlöndum, stöðu Ísraels og Palestínu, sambúð ólíkra menningarheima og trúarbragða, deilurnar um dönsku skopteikningarnar og mótmæli múslima gegn þeim, nauðsyn á gagnkvæmum skilningi og bættum samskiptum þjóða heims og tækifæri sem smærri ríki eins og Ísland og Katar og Abu Dhabi hafa til að styrkja stöðu sína með því að efna til sameiginlegra verkefna á mörgum sviðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert