Leyfa reykingar í mótmælaskyni

Reuters

Félag kráareigenda hyggst mótmæla reykingalöggjöfinni með því að leyfa viðskiptavinum sínum að reykja inni á stöðunum. Kormákur Geirharðsson, kráareigandi og stjórnarmaður í félaginu, segir í samtali við mbl.is að lögin séu illa unnin og að félagið krefjist þess að yfirvöld endurskoði þau.

Kormákur segir að kráareigendur séu allir hlynntir reykingabanninu en hann bendir hins vegar á að málið hafi aldrei verið klárað með fullnægjandi hætti. „Það eru engin viðurlög við reykingum og það vill enginn taka að sér umsjón með banninu. Þeir eiga að setjast niður, þessir háu herrar, og semja þessi lög upp á nýtt,“ segir Kormákur. 

 „Reykingabannið er frábært. En að það skuli ekki vera hægt að bjóða 30-40% af okkar kúnnum upp á annað en 15 stiga frost og 20 metra á sekúndu, það er bara orðið mannréttindabrot. Á meðan má reykja inni á Alþingi, Leifsstöð, Hótel Loftleiðum og víðar,“ segir Kormákur.

Aðspurður segir hann misjafnt hversu langt menn ætli að ganga með því að leyfa reykingar. Hver og einn staður muni meta það fyrir sig. Hann segir hins vegar ljóst að reykingar verði ekki leyfðar í sama mæli og var áður en lögin voru sett.

„Menn setja kannski öskubakka á eitt eða tvö borð, eða, ef menn eru með fleiri en eina hæð, nota kannski efri hæðina undir reykingar og annað slíkt.“ Hann segir að ef viðskiptavinirnir kveiki „sér sjálfir í þá munum við ekki koma til með að henda þeim út.“

Félagið hefur óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að fara yfir málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert