Stykjum úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra

Ásta Möller.
Ásta Möller. mbl.is

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu Samstarfsnefndar um málefni aldraðra um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Ásta Möller, alþingismaður, var formaður Samstarfsnefndarinnar sem fer með stjórn Framkvæmdasjóðsins. Samtals var úthlutað 164 milljónum króna, en sex aðilar fengu styrki úr Framkvæmdasjóðnum að þessu sinni.

Þeir sem hlutu styrki voru:

Akraneskaupstaður fékk 27,2 milljónir sem framlag til að kaupa fasteign fyrir félagsstarf aldraðra.

Hjúkrunarheimilið Eir fékk 15 milljónir króna til að reisa dagdeild fyrir 20 gesti í Spönginni í Reykjavík.

Snæfellsbær fékk 30 milljóna króna styrk til að byggja 12 rýma hjúkrunarheimili við Hjarðartún 3 í Snæfellsbæ.

Reykjavíkurborg fékk 18 milljónir til að kaupa fasteign fyrir dagvistarúrræði fyrir heilabilaða og 3 milljónir til að breyta húsnæðinu.

Hafnafjarðarbær fékk 4,5 milljónir til að breyta fasteign vegna dagvistunar fyrir alzheimersjúklinga og 2,8 milljónir vegna hvíldarinnlagna fyrir sama sjúklingahóp.

Kópavogsbær fékk 60 milljónir króna til að reisa nýtt hjúkrunarheimili í Kópavogi.

Hér er um að ræða síðustu úthlutun heilbrigðisráðherra úr Framkvæmdasjóði aldraðra, þar sem hann  hefur verið fluttur til  félags- og tryggingarmálaráðuneytis í samræmi við breytingar á verkaskiptingu í stjórnarráðinu, samkvæmt tilkynningu.

Þegar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tók við fjármálastjórn sjóðisins var eiginfjárstaða sjóðsins neikvæð um 128 milljónir króna og skuld við TR var rúmar 156 milljónir. Við úthlutunina fyrir árið 2007 var gengið út frá því að lækka skuldir við Tryggingastofnun og koma eiginfé sjóðsins í jákvæða stöðu. Þegar sjóðurinn var fluttur til félagsmálaráðuneytis frá heilbrigðisráðuneyti var hann skuldlaus og með jákvætt eigið fé.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert