Fjögurra ára fangelsi fyrir nauðganir

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Árvakur/Þorkell

Fjörutíu og eins árs gamall karlmaður, Anthony Lee Bellere, hefur verið dæmdur í 4 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þrjár nauðganir og þjófnaðarbrot en maðurinn var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum sem voru 12, 14 og 16 ára þegar brotin voru framin á árunum 2005 og 2006.

Þá var maðurinn dæmdur til að greiða tveimur stúlkunum 800 þúsund krónur í bætur og þeirri þriðju 200 þúsund krónur.

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa  á skipulegan og yfirvegaðan hátt beitt stúlkunar, sem hann kynntist á netinu, til að komast í samband við þær og síðan nauðga, misnota eða misbjóða þeim kynferðislega.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn er síbrotamaður og þykir hann hafa sýnt einbeittan brotavilja í samskiptum sínum við stúlkurnar. Hann hefur frá árinu 1983 hlotið samtals 25 refsidóma sem hafa samtals hljóðað upp á yfir 11 ára óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Flestir dómarnir hafa verið fyrir ýmiss konar auðgunarbrot, aðallega þjófnaði, en maðurinn var dæmdur fyrir hlutdeild í ránsbroti á árinu 1999. Síðast var hann dæmdur í Hæstarétti 15. febrúar 2007 í 5 mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur og fyrir að aka bifreið, sviptur ökurétti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert