Leifsstöð sprungin

Úr Leifsstöð.
Úr Leifsstöð.

Flugumferðin um Keflavíkurflugvöll verður svo mikil næsta sumar að ekki er útilokað að farþegum verði ekið í rútu til og frá einhverjum flugvélum á mesta háannatímanum, að sögn Stefáns Thordersen flugvallarstjóra.

„Það er búist við svipaðri aukningu næsta sumar og var á síðasta ári en þá jókst millilandaflugið um 7,3 prósent frá árinu áður. Þrjú stæði á flughlaðinu sem ekki tengjast landgöngubrúm hafa verið fullnýtt á háannatíma. Þau hafa verið það nálægt flugstöðinni að farþegar hafa gengið til og frá. Það gæti hins vegar komið til þess að nýta þyrfti stæði lengra frá og aka farþegum,“ greinir Stefán frá.

Flugvélastæði með landgöngubrúm við flugstöðina eru 11 og eru þau, eins og stæðin þrjú á flughlaðinu, fullnýtt á háannatíma. „Það er hins vegar ekki endalaust hægt að bæta við landgöngubrúm,“ bendir flugvallarstjórinn á.

Vegna legu Íslands, áætlunarleiða og nýtingar flugvélakosts flugfélaganna er vinsælasti áningartíminn á Keflavíkurflugvelli í tvær klukkustundir snemma á morgnana og aðrar tvær klukkustundir síðdegis.

Í fyrra fóru 13.500 flugvélar í almennu millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll með tæplega 2,2 milljónir farþega. Alls stunduðu 11 flugfélög farþegaflug á Keflavíkurflugvelli á árinu. Um háannatímann síðastliðið sumar voru nærri 300 ferðir á viku í áætlunarflugi og reglubundnu leiguflugi allra flugrekenda á Keflavíkurflugvelli.

Í sumar áætla 16 flugfélög að halda uppi reglubundnu farþega- og leiguflugi um Keflavíkurflugvöll. Ekki liggur fyrir hversu margar flugferðir verða farnar til og frá vellinum í hverri viku í sumar.

Stefán bendir á að umferð um Keflavíkurflugvöll og úthlutun flugvélastæða sé samkvæmt alþjóðlegu kerfi. „Flugfélög vinna sér inn ákveðinn rétt til að nota ákveðin stæði. Þau sem koma inn ný í takmarkaðan tíma á háannatíma hafa minni rétt til að nota stæðin.“

Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli er fjölgun flugvélastæða með tilheyrandi stækkun flugstöðvarinnar nú til athugunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert