Sáttamiðlun gefur góða raun

Á þriðja tug mála hefur verið vísað til sáttamiðlunar frá því að tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum var innleitt á haustmánuðum 2006 á höfuðborgarsvæðinu. Hefur sáttamiðlun nú verið innleidd hjá öllum lögreglustjóraembættum á landinu.

Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var 20 málum vísað til sáttamiðlunar frá 1. október 2006 – 30. september 2007. Eru minniháttar líkamsárásarmál í meirihluta, en einnig er um að ræða mál vegna eignaspjalla, þjófnaða o.fl. langflestir gerendur í þessum málum voru á aldrinum 15-18 ára. Þetta kemur fram í skýrslu eftirlitsnefndar um tilraunaverkefnið. Fjallað er um þetta í vefriti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Í skýrslu eftirlitsnefndarinnar kemur fram að sátt hafi náðst í öllum málunum og málsaðilar séu almennt ánægðir með niðurstöðuna. Til að mál geti farið í sáttamiðlun verður brot að vera smáfellt og/eða varða við ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um þjófnað, gripdeild, húsbrot, hótun, eignaspjöll, minniháttar líkamsárás, nytjastuld eða minniháttar brot gegn valdstjórninni. Ákærandi metur hvort mál séu tæk til slíkrar úrlausnar. finni gerandi og þolandi lausn á málinu gera þeir með sér sáttasamning.

Þegar sáttasamningurinn er efndur er málið fellt niður en að öðrum kosti fer það sína hefðbundnu leið í réttarkerfinu.

Vefrit dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert