Ekki ástæða til að ræða við Vilhjálm og Björn Inga

Svandís Svavarsdóttir sagði að ekki hafi verið rætt við Vilhjálm …
Svandís Svavarsdóttir sagði að ekki hafi verið rætt við Vilhjálm eða Björn Inga. Árvakur/Golli

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG og formaður stýrihóps um málefni Reykjavik Energy Invest, sagði í Silfri Egils í dag, að ekki hefði verið rætt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn, og Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokks, í vinnu stýrihópsins vegna þess að þeir hefðu verið búnir að tjá sig ýtarlega opinberlega um aðkomu sína að málinu.

Þá sagði Svandís, að staða Hauks Leóssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, hefði verið með þeim hætti á þessum tíma, að stýrihópurinn hefði ekki getað kallað hann til viðtals. Hún vildi ekki útskýra nánar hvað hún ætti við.

Svandís m.a. spurð hvort hún teldi að Vilhjálmur ætti að segja af sér sem borgarfulltrúi. Hún sagði, að það væri mál Sjálfstæðisflokksins en flokkurinn væri rótklofinn og virtist haldinn einskonar sjálfsofnæmi. Hún sagði, að flokkurinn væri ekki stjórntækur nú og engar vísbendingar væru um að hann yrði stjórntækur á þessu kjörtímabili.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokks, sagði í Silfri Egils, að hún teldi ekki ólíklegt að fréttir berist um það fljótlega að Vilhjálmur hætti.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, sagði að fyrrverandi minnihluti hefði bundist tryggðaböndum um stöðugleika í stjórn borgarinnar og það samkomulag stæði. Í raun hefði verið stjórnarkreppa í borginni frá því núverandi meirihluti tók við og Sjálfstæðisflokkurinn bæri ábyrgð á því. 

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Vilhjálmur yrði að eiga það við sjálfan sig hvort hann hætti. Pétur sagði, að stjórnmálamenn hafi sett niður í atburðarásinni í Reykjavík undanfarna mánuði og allir borgarfulltrúarnir 15 skulduðu þjóðinni og öðrum stjórnmálamönnum það, að upphefja verðmæti stjórnmálamannsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert