Nýr skipulagsstjóri ráðinn

Borgarráð samþykkti  í dag að ráða Ólöfu Örvarsdóttur, aðstoðarskipulagsstjóra, í starf skipulagsstjóra til eins árs en Birgir Hlynur Sigurðsson lét af starfi skipulagsstjóra í vikunni að eigin ósk.

Óskar Bergsson, borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks, sagði fram fyrirspurn á fundinum um hvað borgarstjóri hyggist gera til þess að koma á nauðsynlegum stöðugleika lykilstarfsmanna hjá Reykjavíkurborg.

Segir Óskar, að mikil hreyfing hefur verið meðal æðstu embættismanna borgarinnar á undanförnum árum. Frá árinu 2002 hafi verið starfandi sex borgarstjórar, fjórir skipulagsstjórar, þrír sviðsstjórar framkvæmdasviðs, fjórir borgarlögmenn og þrír fjármálastjórar. Aðeins þrjár umsóknir bárust í embætti borgarritara sem í framhaldinu var lagt niður. Að auki hafa orðið sviðsstjóraskipti á velferðarsviði, menntasviði, leikskólasviði og umhverfissviði.

Segir Óskar, að þessi upptalning sýni svart á hvítu að starfsmannavelta lykilstarfsmanna Reykjavíkurborgar sé orðið verulegt áhyggjuefni og veki upp spurningar um hvað geri það að verkum, að yfirmenn Reykjavíkurborgar staldra svo stutt við eins og raun beri vitni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert