Leikskólakennarar andvígir 5 ára bekkjum

Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, segir á heimasíðu Kennarasambands Íslands, að félagið vari við hugmyndum Reykjavíkurborgar um að koma á fót fimm ára deildum við fjóra grunnskóla í Reykjavík næsta haust.

Björg segir, að í núgildandi lögum um leikskóla sé ekki heimild fyrir rekstri fimm ára deilda innan grunnskóla og í frumvarpi um leikskóla, sem nú liggur fyrir Alþingi sé heldur ekki að finna slíka heimild. Fræðimenn séu sammála um að ungum börnum henti best að læra í leik og skapandi starfi, en leikskólar skipuleggi lærdómsumhverfi barna út frá þeirri hugmyndafræði.

Sjálfstæðismenn lögðu 2. nóvember sl. fram tillögu í borgarstjórn þess efnis að komið verði á fót fimm ára deildum við grunnskóla í Reykjavík. Menntaráð og leikskólaráð Reykjavíkur hafa nú samþykkt að kannaðir verði möguleikar á að stofna fimm ára deildir við fjóra grunnskóla borgarinnar í haust. Óskað er eftir að niðurstöður liggi fyrir í apríl og verði þær þá lagðar fram í menntaráði og leikskólaráði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert