Eina leiðin að sækja um ESB-aðild

Björgvin G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra.
Björgvin G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Árvakur/G. Rúnar Guðmundsson

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi að sjálfsagt væri að hefja umræðu um hvernig gjaldmiðilsmálum yrði best háttað og leiða hana til lykta á næstu misserum. Sagði Björgvin, að eina leiðin sem hann teldi færa í framtíðinni væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu og Myntbandalagi Evrópu.

Björgvin var að svara fyrirspurn frá flokksbróður sínum Karli V. Matthíassyni sem vísaði til ummæla Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Baugs, um að íslensk stjórnvöld ættu að íhuga að sækja um aðild að Evrópusambandinu því það myndi hafa góð áhrif á efnahagslífið.

Björgvin sagði, að tvennt valdi íslenskum fjármálafyrirtækjum einkum erfiðleikum nú. Annað væri alþjóðleg fjármálakreppa, sem hefði áhrif á íslensku fyrirtækin eins og þau erlendu.  Hitt væri svokallaður hlutfallsvandi: fjármálafyrirtækin væru orðin hlutfallslega of stór fyrir gjaldmiðilinn og hagkerfið.

„Það er eitt stærsta verkefni stjórnmálanna á næstu misserum og árum að leiða þetta til lykta ... hver er staða Íslands með sinn gjaldmiðil í framtíðinni. Hvaða leiðir eru til að vinna að því máli?Það er ljóst eftir þing viðskiptaráðs að einhliða upptaka evru er útilokuð af pólitískum ástæðum. Eina leiðin sem mér finnst vera  fær í framtíðinni er að sækja um aðild að (Evrópu)sambandinu og myntbandalaginu og koma þeim hlutum þannig fyrir til framtíðar. Áður þurfum við að ná jafnvægi á efnahagslífi innanlands en það er sjálfsagt að hefja umræðuna og stefna að því að hafa leitt hana til lykta á næstu misserum þannig að þetta liggi fyrir innan fárra ára hvað sé best og réttast að gera fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar allrar í þessu máli," sagði Björgvin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert