Framhaldsskóli í Mosfellsbæ

Framhaldsskóli mun rísa í Mosfellsbæ
Framhaldsskóli mun rísa í Mosfellsbæ Árvakur/RAX

Í dag undirrituðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, samkomulag um stofnun og byggingu framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Skólinn mun rísa í miðbæ Mosfellsbæjar og stefnt er að því að skólastarf hefjist þar haustið 2009.

Skólinn verður fyrsti framhaldsskóli Mosfellsbæjar og fyrsti framhaldsskóli sem er stofnaður á vegum opinberra aðila á höfuðborgarsvæðinu frá því að Borgarholtsskóli hóf störf árið 1996.

Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir allt að 4.000 fermetra byggingu sem rúmar 400-500 nemendur. Við ákvörðun lóðarstærðar verður gert ráð fyrir möguleikum til verulegrar stækkunar í framtíðinni og við hönnun hússins og undirbúning skólastarfs verður lögð áhersla á sveigjanleika og möguleika til nýbreytni, samkvæmt tilkynningu.

Skólameistari mun hefja störf eigi síðar en haustið 2008. Hann mun ásamt öðrum ráðgjöfum vinna að undirbúningi, stofnun og uppbyggingu skólans í samvinnu við Menntamálaráðuneyti og Mosfellsbæ. Í samningi milli aðila er gert ráð fyrir að Mosfellsbær muni hafa mikil áhrif á uppbyggingu og stefnu skólans alveg frá byrjun og sjá um byggingu hans fyrir hönd ráðuneytis.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæja segir í tilkynningu: „Við hjá Mosfellsbæ viljum vera leiðandi á sviði menntunar og skólastarfs. Framhaldsskóli í Mosfellsbæ er mikill og stór áfangi á þeirri leið. Nú getur ungt fólk í Mosfellsbæ sótt menntun upp að háskólastigi í sinni heimabyggð."

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, segir í tilkynningu: „Íbúum fjölgar ört í nýbyggðum hverfum í Mosfellsbæ. Við því hefur nú verið brugðist með ákvörðun um byggingu nýs framhaldsskóla sem mun koma til móts við mikla fjölgun ungmenna á þessu svæði. Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu mikla áherslu bæjaryfirvöld leggja á að taka þátt í þessu verkefni með okkur og vinna sameiginlega að þróun öflugs og nýstárlegs skólastarfs ."

Á þessu svæði, milli Vesturlandsvegar og Háholts, mun skólinn rísa.
Á þessu svæði, milli Vesturlandsvegar og Háholts, mun skólinn rísa. Árvakur/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert