Ísland tekur þátt í átaki gegn kolefnislosun

Þórunn Sveinbjarnardóttir ásamt Erik Solheim, umhverfisráðherra Noregs, og Achim Steiner, …
Þórunn Sveinbjarnardóttir ásamt Erik Solheim, umhverfisráðherra Noregs, og Achim Steiner, framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar SÞ.

Ísland er eitt af fjórum ríkjum sem taka þátt í átaki á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) um að stefna að kolefnishlutleysi. Átakinu var hleypt af stokkunum á ráðherrafundi UNEP í Mónakó í dag.

Að sögn umhverfisráðuneytisins sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, við þetta tækifæri að þótt loftslagsbreytingar væru alvarleg ógn væri mikilvægt að ganga bjartsýn til verks við að finna lausn á vandanum. Það kallaði á nýsköpun og tækniþróun. Tilgangur átaksins er að vekja athygli á dæmum um góðar lausnir á sviði loftslagsmála og efla metnað hjá ríkjum, fyrirtækjum og öðrum til að ,,afkola" starfsemi sína.

Stofnríki átaksins eru Ísland, Kosta Ríka, Noregur og Nýja-Sjáland. Einnig taka þátt í því fjórar borgir og fimm fyrirtæki, sem stefna að því að verða kolefnishlutlaus. Auk ríkja, borga og fyrirtækja mun alþjóðasamtökum, félagasamtökum og jafnvel einstaklingum standa til boða að skrá sig í átakið í framtíðinni.

Með ,,afkolun" og ,,kolefnishlutleysi" er átt við að starfsemi hafi ekki í för með sér nettólosun á koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum, sem valda hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum. 

Þórunn sagði í ávarpi sínu í dag að Ísland teldi sig eiga heima í framvarðasveit ríkja í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert