Reynt að svíkja út kreditkortanúmer

AP

Tilkynnt hefur verið til lögreglunnar á Eskifirði um símtöl til einstaklinga hér á landi þar sem tilkynnt er á ensku að viðkomandi hafi unnið virði 75% af  ferð til útlanda en greiða verði með greiðslukorti þau 25% sem upp á vantar inn á ákveðinn reikning.  Við eftirgrennslan lögreglunnar á Eskifirði kom í ljós að þessi símtöl koma erlendis frá. 

Lögreglan segist telja einsýnt, að  um sé að ræða tilraun til þess að ná kreditkortanúmerum í því skyni að svíkja út fé, og vill  eindregið vara við því að fólk láti kortanúmer sín í té. 

Lögreglan segir, að það virðist vera nýtilkomið, að haft sé beint samband við fólk með þessum hætti en lögreglan hefur áður varað við bréfum og tölvupósti þar sem tilkynnt er um ávinning og óskað eftir að fólk láti í té reikningsnúmer sín og jafnvel innborganir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert