Afrekssjóður fyrir afburðanemendur

Stúdentar brautskráðir frá Háskóla Íslands í dag.
Stúdentar brautskráðir frá Háskóla Íslands í dag. Árvakur/Kristinn

Háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt að setja á stofn afreks- og hvatningasjóð til styrktar afburðanemendum. Annars vegar verður um að ræða styrki til nemenda sem ná afburðaárangri á stúdentsprófi og innritast í HÍ og hins vegar til nemenda sem skara fram úr í háskólanámi sínu eftir að hafa innritast.

Þetta kom fram í máli Kristínar Ingólfsdóttur, háskólarektors, við brautskráningu kandídata í dag. Úthlutað verður úr sjóðnum í fyrsta sinn í haust en þessi nýi sjóður kemur til viðbótar við aðra styrktarsjóði sem styðja afburðanemendur við Háskóla Íslands.

Kristín sagði einnig frá því, að hún hefði fyrr í þessum mánuði undirritað samstarfssamning við Auðlindastofnun Indlands. Af hálfu stofununarinnar undirritaði samninginn Rachendra Pachauri, sem tók við friðarverðlaunum Nóbels nýverið sem formaður vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Sagði Kristín, að þessi samningur, sem er gerður að frumkvæði Pachauris, feli í sér víðtækt samstarf í rannsóknum á umhverfismálum og auðlindanýtingu, orku- og jarðvísindum og sjálfbærri þróun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert