Viðvarandi stjórnarkreppa

„Mér finnst ekki traustvekjandi og í raun óábyrgt að ýta augljósum innanbúðarvanda á undan sér," segir Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Segir hann blasa við að Vilhjálmur Þ. Vilhjámsson njóti ekki trausts í sínum hópi til að verða næsti borgarstjóri í Reykjavík.

„Frá því nýr meirihluti var myndaður hefur verið viðvarandi stjórnarkreppa vegna innri átaka í Sjálfstæðisflokknum og það bitnar auðvitað á öllum sem eiga eitthvað undir borgina að sækja. Þess vegna hefði, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hrundi saman innan frá í haust, verið miklu heilbrigðara fyrir þennan hóp að vinna úr sínum innri ágreiningi og ná einhvers konar jarðtengingu í minnihluta frekar en að mynda þennan fordæmalausa meirihluta á mjög svo hæpinn hátt," segir Dagur.

„Mér finnst þessi framganga undanfarinna vikna vandræðalegur og Sjálfstæðisflokknum til skammar," segir Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna. Aðspurð segist hún óttast að innri átökin í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna muni hafa neikvæð áhrif á borgina.

„Þegar borgarfulltrúar meirihlutans eru allir uppteknir við annað en að stjórna borginni þá gefur það auga leið að það er mjög alvarlegt ástand. Flokkur sem svona er ástatt um á ekki að bjóða fólki upp á það að vera í meirihluta," segir Svandís og tekur fram að ábyrgð forrystumanna flokksins við þessar aðstæður sé afar mikil. Segir hún sjónarspil undanfarinna vikna hafi orðið til að afhjúpa hvað Sjálfstæðisflokkurinn sé í raun getulítill að takast á við sín innri mál. „Þegar vandræðagangurinn er orðinn svona viðvarandi finnst mér komið að því að forrystan sýni hvers hún er megnug."

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknaflokks, segir ákvörðun Vilhjálms Þ. ekki koma sér á óvart. Hann telur niðurstöðu Vilhjálms byggjast á því að sjálfstæðismenn geti ekki komið sér saman um eftirmann.

Spurður hvort minnihlutinn ætli að beita sér í málinu segir Óskar að sjálfstæðismenn verði krafnir svara. „Óvissa er aldrei góð í stjórnmálum og Vilhjálmur viðheldur henni með þessari niðurstöðu. Ég er ekki viss um að það gangi til lengdar. Almenningur, starfsmenn borgarinnar og aðrir munu krefjast þess að vita hvað taki við að ári, þegar Ólafur F. [Magnússon] lætur af embætti borgarstjóra. Það er ekki hægt að búa við þetta áfram og ég reikna með að við [í minnihlutanum] tökum málið upp á næsta fundi borgarráðs eða borgarstjórnar og krefjumst frekari skýringa," segir Óskar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert