Nýr bjór kemur á markað um helgina

Skjálfti er nýr bjór sem kemur á markað á afmælisdegi …
Skjálfti er nýr bjór sem kemur á markað á afmælisdegi bjórsins, 1. mars. Bjarni Einarsson

Nýr sælkerabjór, Skjálfti, kemur á markað um helgina á bjórdeginum svonefnda 1. mars, en 19 ár eru liðin frá því bjórsala var lögleidd á Íslandi.  Bjarni Einarsson, framkvæmdastjóri brugghússins Ölvisholts í Flóahreppi segir að mikil áhersla sé lögð á gæði og val á hráefni við framleiðslu Skjálfta.

„Skjálfti er svokallaður sælkerabjór, mjög mikið er lagt í framleiðslu hans. Við notum margar korntegundir og sérstakt ger, sem gefur eftirminnilegt bragð og setur djúpan gylltan lit á bjórinn.  Framleiðslan er eiginlegt handverk þar sem áhersla er lögð á að bruggmeistari og starfsfólk stýri brugguninni með eftirliti," segir Bjarni.

Bjarni segir Ölvisholt hafa átt gott samstarf við ÁTVR en til að byrja með verður Skjálfti til sölu í tveim áfengisverslunum á höfuðborgarsvæðinu.  Þó að bjórinn sé sunnlenskur kveða reglur ÁTVR á um að nýjar áfengistegundir á íslenskum markaði þurfi að fara í reynslusölu í tvo mánuði í Heiðrúnu, verslun ÁTVR að Stuðlahálsi og Vínbúðinni í Kringlunni.  Hins vegar er hægt að nálgast bjórinn í öðrum verslunum gegn pöntun, í hvaða verslun sem er.

Valgeir Valgeirsson er bruggmeistari Ölvisholts en hann er menntaður í bruggun og eimingu frá Edinborg í Skotlandi og starfaði Valgeir um tíma hjá brugghúsinu Heather Ale í Skotlandi.  Valgeir segir Ölvisholt stefna á að auka bjórvitund þjóðarinnar með því að kynna fyrir henni nýjum gerðum og öðruvísi bjórbragði. 

Valgeir segir muninn á Skjálfta og öðrum lagerbjór vera val á hráefni. „Skjálfti er dekkri en flestir lagerbjórar, meira af dökku malti er notað sem gefur sterkara maltbragð, og gefur betri keim, svo nota ég mikið af humlum sem gefa bjórnum ljúfan angan," segir Valgeir.

Bjarni segist líta svo á að, að drekka bjór sé upplifun.   „Það  má segja að nýr kafli í bjórmenningu Íslendinga hefjist, með komu nýs sælkerabjórs," segir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert