Menntafélagið yfirtekur rekstur skóla

Iðnskólinn í Reykjavík.
Iðnskólinn í Reykjavík. Árvakur/ÞÖK

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, skrifar í dag undir samning við Menntafélagið um yfirtöku á rekstri Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Fjallað var um samninginn á ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Samningurinn er til fimm ára og gildir frá 1. júlí 2008. Skólinn verður stærsti framhaldsskóli landsins með vel á þriðja þúsund nemendur, 250 starfsmenn og yfir 40 námsbrautir.

Námsframboð í hinum nýja skóla verður óbreytt til að byrja með en samið verður um þróun námsframboðs í skólasamningi og komið á fót samráðshópi menntamálaráðuneytis og skólans um skólaþróun.

Viðræður um sameiningu skólanna hafa staðið í á annað ár. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu verður öllum fastráðnum starfsmönnum Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands boðið starf við hinn nýja skóla og halda þeir réttindum sínum og kjörum óskertum. Nemendur sem stunda nám við Fjöltækniskóla Íslands og Iðnskólann í Reykjavík við gildistöku samningsins eiga rétt til að ljúka skilgreindu námi skv. aðalnámskrá framhaldsskóla.

Menntafélagið er í eigu Samtaka iðnaðarins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samorku, Sambands íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík og hefur félagið annast rekstur Fjöltækniskóla Íslands með samningi við menntamálaráðuneyti frá árinu 2003. Menntafélagið er ekki rekið í ágóðaskyni heldur rennur allur hugsanlegur ágóði af rekstri þess beint í skólareksturinn.

Samkvæmt samþykktum félagsins munu eigendur þess í upphafi leggja fram 100 milljónir króna til þróunarstarfs í skólanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert