Snjóflóð lokar flugvallarvegi

Flóðið í Kirkjubólshlíð féll skömmu eftir hádegi í dag.
Flóðið í Kirkjubólshlíð féll skömmu eftir hádegi í dag. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Snjóflóð féll í Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði og lokar veginum milli Ísafjarðar og flugvallarins. Að sögn Sigurðar Mar Óskarssonar hjá Vegagerðinni er flóðið breitt en ekki þykkt. Ekki er flogið hvort eð er vegna veðurs og því beðið með að ryðja veginn uns veðri slotar.

Snjóruðningstæki mun vera á leið til Ísafjarðar innan úr Ísafjarðardjúpi og ryður það leiðina fyrir bílalest sem í eru um fimm fólksbílar og nokkrir vöruflutningabílar.

Veður er ekki svo slæmt að sögn Sigurðar Mar, það birtir til á milli élja en skefur mikið þess á milli.

Það festist einn jeppi og fólksbíll sem óku inn í snjóflóðið í Kirkjubólshlíð fyrr í dag en þar sem flóðið er grunnt urðu engin slys á mönnum eða teljanlegar skemmdir á bílunum. 

Bátur sendur eftir lögreglumönnum

Í bílalestinni sem er nú komin til Súðavíkur er meðal annars hópur lögreglumanna sem er á leið á fótboltamót lögreglumanna á Ísafirði. Ekki er talið óhætt að ryðja veginn til Ísafjarðar vegna mikillar snjókomu og snjóflóðahættu og er verið að senda bát eftir lögreglumönnunum og þeim vegfarendum sem kjósa að fara sjóleiðina frá Súðavík til Ísafjaraðar.

Öldungamót lögreglumanna í knattspyrnu sem hefjast átti klukkan fimm í gær mun því hefjast klukkan fjögur í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði. 

Jeppinn ók inn í flóðið og festist.
Jeppinn ók inn í flóðið og festist. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert