Mikill munur á húsnæðisverði hér og í Danmörku

Námsmenn sem farið hafa utan til náms sjá sér oft ekki fært að flytja aftur til Íslands. Verð á húsnæði skiptir þar mestu máli.

„Húsnæðismarkaðirnir heima og úti í Danmörku hafa reyndar fylgst að en eins og staðan er í dag þarf fólk að borga það sama fyrir íbúð í Kópavogi og það gerir á miðbæjarsvæðinu í Kaupmannahöfn,“ segir Jón Hnefill Jakobsson en hann er nú við nám í Kaupmannahöfn.

Hann segir ekki eingöngu mun á því að kaupa íbúð, leigumarkaðurinn sé mun ódýrari.

„Ég bý í nýrri íbúð með þvottavél, þurrkara og uppþvottavél, hún er 80 fermetrar og mjög góðar almenningssamgöngur. Fyrir þetta borga ég ríflega 115 þúsund krónur íslenskar á mánuði. Leiguverð í miðbæ Reykjavíkur er um 160-170 þúsund krónur, jafnvel fyrir minni íbúðir,“ segir Jón Hnefill.

Þá segir hann ástandið á atvinnumarkaði ekki mjög spennandi. „Ég sé ekki fram á að ég komi heim næstu áratugina, ég er að mennta mig í margmiðlunarverkfræði með áherslu á gervigreind og annað í þeim dúr, svo að mér finnst ekkert rosalega spennandi tilhugsun að fara heim til að vinna í álveri,“ segir hann.

„Svo er námslánakerfið allt annað. Danska ríkið borgar fólki fyrir að vera í námi, 4500 danskar á mánuði, við eigum að fá í kringum 7000 danskar á mánuði. Af þessu leiðir að það er mjög erfitt að lifa eingöngu á námslánum, sérstaklega ef fólk þarf að leigja á almennum leigumarkaði,“ segir Jón Hnefill og bætir við að atvinnuleysisbætur hafi hækkað á Íslandi en ekki námslán. „Dönsk stjórnvöld virðast hugsa lengra fram í tímann.“ fifa@24stundir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert