Áhrif stríðs á konur í Líberíu

Olubanke King-Akerele á blaðamannafundi UNIFEM á Íslandi í Iðnó í …
Olubanke King-Akerele á blaðamannafundi UNIFEM á Íslandi í Iðnó í morgun. mbl.is/Ómar

Olubanke King-Akerele, utanríkisráðherra Líberíu, fjallaði um áhrif stríðs á konur þar í landi á blaðamannafundi sem UNIFEM á Íslandi hélt í morgun í tilefni af Fiðrildaviku UNIFEM. Einnig ræddi King-Akerele um mikilvægi þess að konur taki þátt í friðarferli og stjórn landsins.

Í fréttatilkynningu frá UNIFEM á Íslandi segir:

„Olubanke King-Akerele tók við embætti utanríkisráðherra Líberíu í október 2007 og hún er ein af þremur konum sem skipa sæti ráðherra í Líberíu. King-Akerele hefur meðal annars gegnt áhrifastöðum hjá Sameinuðu þjóðunum í tuttugu ár. Blóðug átök í Líberíu á árunum 1998-1996 og 1999-2003 lögðu innviði samfélagsins í rúst og hrakti þúsundir manna á flótta. Konur og stúlkur eru helstu fórnarlömb þessara átaka þar sem nauðgun og kynferðislegt ofbeldi var kerfisbundið notað sem vopn í höndum stríðandi fylkinga. Ekki er séð fyrir endann á kynbundu ofbeldi tengt átökunum þar í landi. Konur í Líberíu sýndu mikla samstöðu í friðsamlegri baráttu þeirra gegn stríðunum. Saga þeirra er fordæmisgefandi fyrir aðrar konur víðsvegar um heim. Þar að auki er saga Líberíu gott dæmi um mikilvægi þess að styðja á sama tíma við konur í grasrótarstarfi og á ríkisstjórnarstigi. Forseti Líberíu, Ellen Johnson-Sirleaf, er fyrsta konan sem kjörin er forseti Afríkuríkis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert