Nýr gjaldmiðill innan 3 ára?

Frummælendur á pallborði ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn í dag.
Frummælendur á pallborði ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn í dag. mbl.is/Rósa

Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings, sagði í pallborðsumræðum á ráðstefnu um íslensk efnahagsmál í Kaupmannahöfn í dag, að líklegt sé að Íslendingar taki upp nýja mynt innan þriggja ára.

Ráðstefnan var haldin á vegum íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn í samvinnu við íslensk-danska viðskiptaráðið og dansk-íslenska félagið. Áður hafa verið haldnir tveir sambærilegir fundir í Kaupmannahöfn þar sem brugðist hefur verið við ákafri umræðu í dönskum fjölmiðlum um íslenskt efnahagslíf og útrás íslenskra fjármálafyrirtækja.

Sérstakur gestur ráðstefnunnar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra en auk hennar og Sigurðar töluðu Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi og Richard Portes, hagfræðiprófessor.

Ingibjörg Sólrún var í pallborðsumræðunum m.a. spurð hver væri afstaða íslensku  ríkisstjórnarinnar til aðildar landsins að Evrópusambandinu. Hún svaraði að þar sem allir flokkar nema Samfylkingin væru andsnúnir aðilarviðræðum hefði málið ekki verið rætt til hlítar hvorki meðal almennings né stjórnvalda. Hún taldi hins vegar sennilegt að vegna umræðu um evruna og stöðu krónunnar yrði aðildin að kosningamáli fyrir næstu alþingiskosningar.

Ingibjörg Sólrún sagði í framsögu sinni að sér hefði komið á óvart að umfjöllun danskra fjölmiðla um Íslendinga væru oft á skjön við raunveruleikann. Ímynd Dana af Íslandi og Íslendingum væri oft goðsagnakennd en sögueyjan væri jú bara skáldskapur og úr tengslum við raunveruleikann. 

Þá sagði Ingibjörg Sólrún, að spurt sé hvernig íslenska ríkisstjórnin myndi bregðast við færi svo að íslensku bankarnir lentu í erfiðleikum.

„Ég lít á þetta sem algerlega fræðilega spurningu vegna þess að bankarnir hafa það ágætt. En ég vil jafnframt benda á, að bæði ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa burði til að hindra lausafjárþurrð, verja sparifjáreigendur og koma í veg fyrir að peningakerfið raskist. Við ráðum yfir nauðsynlegum verkfærum  og ég get fullvissað ykkur um að íslenska ríkisstjórnin myndi að sjálfsögðu bregðast við með sama hætti og hver önnur ábyrg ríkisstjórn myndi gera kæmi slík staða upp," sagði Ingibjörg.

Ræða Ingibjargar Sólrúnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert