Grágæs algengasti varpfuglinn í Vatnsmýrinni

Máfar á Tjörninni í Reykjavík.
Máfar á Tjörninni í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Grágæsin er algengasti varpfuglinn í friðlandinu í Vatnsmýri. Engar stokkendur, gargendur, duggendur eða skúfendur notuðu friðlandið til varps árið 2007. Aðstæður tjarnarfugla eru óviðunandi að mati Ólafs K. Niesen og Jóhanns Óla Hilmarssonar sem hafa tekið saman skýrslu fuglalíf Tjarnarinnar fyrir Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur. 

Fjórar tegundir anda reyndu varp við Tjörnina 2007: stokkönd, duggönd, skúfönd og æður. Eitt gargandapar var á svæðinu um vorið en ekki er vitað hvort kollan gerði tilraun til varps. Þessar fimm tegundir hafa verið árvissir varpfuglar við Tjörnina í áratugi. Urtönd og toppönd dvöldu langdvölum á svæðinu 2007 en urpu ekki.

Hreiðurleit var gerð í friðlandinu og í hólmum. Grágæsin reyndist algengasti varpfuglinn í friðlandinu en 19 hreiður fundust. Eitt hrossagaukshreiður fannst með 4 eggjum og af öðrum mófuglum voru í friðlandinu þann 23. maí: ein heiðlóa, sandlóupar, þúfutittlingspar og syngjandi karlfugl þúfutittlings.

Engar stokkendur, gargendur, duggendur eða skúfendur notuðu friðlandið til varps. Skýrsluhöfundar segja að þetta sé óvænt niðurstaða  sem valdi þeim áhyggjum því áður hafi verið töluvert andavarp á þessu svæði. Er afrán nefnt sem möguleg skýring en kettir sækja stíft inn á friðlandið.  Þá hafi verið gengið á varplönd í næsta nágrenni friðlandsins með húsbyggingum, gerð bílastæða og veglagningum.

Skýrsluhöfundar ráðleggja borgaryfirvöldum að ráða umsjónarmann (andapabba eða -mömmu) með tjarnarfuglunum. Verksvið hans vor og sumar væri að sinna þörfum fuglanna, líkt og undirbúa hólmana og friðlandið fyrir varp, verja varplöndin fyrir vargi, fóðra og verja andarunga og telja og vakta fuglanna. Hlutverkið að vetri til yrði að tryggja að vetursetufuglar hefðu nóg æti. Höfundar telja einnig að friðland Vatnsmýrannar þjóni í raun helst grágæsinni sem varpland. 

Vefsvæði Umhverfis- og samgöngusviðs 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert