Atvinnuleysi mældist 1% í febrúar

Atvinnuleysi í febrúar mældist 1% og voru að meðaltali 1.631 einstaklingur á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. þetta er lítilsháttar fjölgun frá janúarmánuði, eða um 86 manns, þó atvinnuleysið mælist óbreytt. Fyrir ári, eða í febrúar 2007, var atvinnuleysið 1,3%.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun jókst atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu um 6% og er 0,7% eða sama og í janúar.  Á landsbyggðinni jókst atvinnuleysi minna eða um 5% en fer þó úr 1,5% í janúar í 1,6% í febrúar. Atvinnuleysi jókst fyrst og fremst meðal kvenna á landsbyggðinni.

Stofnunin segir, að atvinnuástandið breytist yfirleitt lítið milli febrúar og mars. Í fyrra minnkaði atvinnuleysið um 5% milli þessara mánaða og var þá 1,3% bæði í febrúar og mars. Lausum störfum hjá Vinnumálastofnun fjölgaði talsvert eða um 76 milli janúar og febrúar og voru 260 í lok febrúar. Atvinnulausum í lok febrúar fjölgaði frá lokum janúar eða um 40, sem er litlu meiri aukning en á sama tíma árið 2007 þegar fjölgaði um 23 milli þessara mánaða. Segir Vinnumálastofnun, að þegar allt sé talið sé því líklegt að atvinnuleysið í mars muni lítið breytast og verða á bilinu 0,9%-1,2%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert