Bótaskyldur vegna ævisögu

Hús Hæstaréttar.
Hús Hæstaréttar. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur dæmt Hannes Hólmstein Gissurarson til að greiða Auði Laxness, ekkju Halldórs Laxness, 1,5 milljónir króna í fébætur fyrir brot á höfundarrétti í fyrsta bindi af ævisögu Halldórs. Þá er Hannes Hólmsteinn dæmdur til að greiða 1,6 milljónir í málskostnað.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað Hannes Hólmstein af kröfum Auðar. Hæstiréttur vísaði frá kröfu Auðar um að Hannesi Hólmsteini yrði dæmd refsing samkvæmt höfundarréttarlögum en talið var að frestur til að höfða einkarefsimál hefði verið liðinn.

Auður taldi, að Hannes Hólmsteinn hefði í 120 tilvikum nýtt sér í miklum mæli texta Halldórs Laxness í fyrsta bindi ævisögunnar, sem kom út árið 2003 og og með því framið umfangsmikil brot á höfundarétti.

Hæstiréttur taldi, að Hannes hefði í um það bil tveimur þriðju hluta þeirra tilvika, sem Auður tilgreindi, brotið með fébótaskyldum hætti gegn höfundarétti að verkum Halldórs með því að nýta sér texta hans ýmist lítið breyttan eða nokkuð breyttan en haldið stíleinkennum og notað þá einstaka setningar og setningarbrot notuð lítt breytt og án þess að vísa til heimildar.

Hæstiréttur féllst ekki á það með Hannesi, að allsherjartilvísun hans í fimm minningarbækur Halldórs Laxness í eftirmála ævisögunnar uppfyllti skilyrði   höfundalaga um tilvísun.

Í dómi Hæstaréttar segir, að í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti hafi Auður byggt á því að ef litið væri til allra tilvikanna hefði Hannes nýtt sér 320 síður eða byrjaðar síður úr ritverkum Halldórs. Því var ekki sérstaklega mótmælt. Séu hin fébótaskyldu tilvik metin með svipuðum hætti gætu þau samsvarað rúmlega 210 síðum eða byrjuðum síðum úr verkum skáldsins.

Dómur Hæstaréttar

Halldór Laxness.
Halldór Laxness.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert