Dæmdur í fangelsi fyrir ofbeldi og kynferðisbrot

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt rúmlega fertugan karlmann í eins árs fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir gróft ofbeldi og nauðgun gegn þáverandi unnustu sinni. Manninum var einnig gert að greiða konunni rúmlega 600 þúsund í skaðabætur og að greiða allan sakarkostnað.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í maí á síðasta ári ruðst inn í íbúð á Laugarvatni, þar sem unnusta hans var gestkomandi, togað hana út úr íbúðinni og inn í bíl sem hann ók að Gjábakkavegi, dregið hana út úr bílnum  og slegið hana í andlit eða líkama.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa sett konuna aftur inn í bílinn og ekið að Laugarvatni og dregið þar konuna út úr bílnum, m.a. á hárinu, eftir möl og gangstétt og upp stiga, inn í íbúð hennar á 2. hæð hússins, inn á salerni, lokað hurðinni og veist að henni þar með ofbeldi, afklætt hana og misþyrmt henni kynferðislega og einnig slegið hana í andlitið.

Konan hlaut glóðarauga og mar, rispur og bólgur í andlit, mar á enni og á höfði, eymsl í hársvörð og skrámur og mar víðs vegar um líkamann.

Fram kemur í niðurstöðu dómsins, að manninn hafi grunað, að konan væri að halda framhjá sér. Það er hins vegar ekki virt honum til refsilækkunar. Þá segir dómurinn, að maðurinn hafi játað brot sitt að mestu greiðlega en einnig er litið til þess, að árásin hafi verið hrottafengin og ófyrirleitin og að hluta framin inni á heimili konunnar þar sem fjórtán ára dóttir hennar var einnig stödd og varð vitni að fólskulegri árás á móður sína.

Þá verði að líta til þess að um brotasamsteypu hafi verið að að ræða og að ofbeldi mannsins stóð yfir í umtalsverðan tíma og verið til þess fallið að niðurlægja unnustu hans og svipta hana mannlegri reisn. Þá hafi árásin haft líkamlegar og andlegar afleiðingar í för með sér fyrir konuna og  dóttur hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert