Evrópuráðið rannsakar ferðir CIA-vélar

Fánar 46 aðildarríkja blakta utan við byggingu Evrópuráðsins í Strassborg.
Fánar 46 aðildarríkja blakta utan við byggingu Evrópuráðsins í Strassborg. mbl.is/GSH

Terry Davis, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sem er í staddur í Ósló, segir við fréttavef Aftenposten að hann muni beita sér fyrir rannsókn á ferðum flugvéla á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, um Solaflugvöll í Stavanger í Noregi.

Í morgun lenti flugvél af gerðinni Beechcraft 350C á Solaflugvelli. Vélin er skráð á fyrirtækið Aviation Specialities Inc. í Baltimore en það er eitt af leppfyrirtækjum CIA, að því er kemur fram í skýrslu Evrópuþingsins frá árinu 2006. Talið er að vélar fyrirtækisins hafi verið notaðar til að flytja fanga, grunaða um hryðjuverkastarfsemi, í leynifangelsi á vegum CIA.

Aftenposten segir að ekki hafi verið hægt að fá upplýsingar um hvort fangar hafi verið um borð í vélinni þegar hún lenti í Stavanger í morgun. Flugvélin hélt áfram til Íslands og lenti á Keflavíkurflugvelli um hádegið þar sem hún tók eldsneyti. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli sagði við mbl.is í dag, að tollverðir hefði farið um borð í vélina og þar hefðu aðeins verið tveir flugmenn. Vélin hélt áfram til Grænlands og þaðan til Bandaríkjanna.

Aftenposten hefur eftir Davis, að hann muni láta skoða til hvaða ráðstafana norsk stjórnvöld geti gripið vegna ferða CIA-flugvéla. Davis hafði ekki frétt af vélinni í morgun en sagðist myndu láta kanna málið.

Davis segist telja, að Noregur og aðrar þjóðir eigi að grípa til harðari aðgerða gegn ólöglegum fangaflutningum gegnum Evrópu. Norsk stjórnvöld eigi að banna slíkum flugvélum að lenda á norskum flugvöllum.

„Við vitum að Bandaríkin flytja fanga til leynilegra staða utan landamæra sinna. Bæði Condoleezza Rice og George W. Bush hafa staðfest það og Norðmönnum ber skylda til, eins og öðrum þjóðum, að koma í veg fyrir brot gegn mannréttindum," hefur Aftenposten eftir Davis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert