Fer til Afganistan á sunnudag

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/RAX

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, heldur til Afganistan á sunnudag. Heimsóknin stendur yfir fram á næsta fimmtudag, skírdag en af öryggisástæðum er ekki gefið upp hvert verður farið eða á hvaða tíma.

Að sögn ráðherra er ástandið í Afganistan eitt helsta mál á dagskrá hjá Sameinuðu þjóðunum, NATO, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og á fundum norrænna utanríkisráðherra.

„Það skiptir mjög miklu máli að þegar svona stórpólitískt mál er rætt á þessum vettvangi, að mér hafi gefist kostur á að hitta stjórnmálamenn, ráðamenn og fulltrúa ýmissa samtaka, svo ég hafi tilfinningu fyrir viðhorfi þarlendra aðila."

Ekki verður gefið upp fyrirfram hverja ráðherra mun hitta, einnig af öryggisástæðum.

För Ingibjargar Sólrúnar er farin að hennar frumkvæði og er lokahnykkur í vinnu að þriggja ára áætlun utanríkisráðuneytisins um málefni Afganistan. Ráðherra segir framlag Íslands vera borgaralegt, þó það sé tengt starfsemi NATO í Afganistan.

Nú þegar eru 14 íslenskir friðargæsluliðar í Afganistan og  þrír verða sendir til viðbótar á næstunni til Mai-Mana héraðs til starfa með Norðmönnum. Enn er verið að ræða hvaða störfum Íslendingarnir muni gegna.

Auk ráðherra fer Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri en eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær verða fimm sérsveitarmenn einnig í föruneyti ráðherra. Þá eru Anna Jóhannsdóttir skrifstofustjóri Íslensku friðargæslunnar og Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, þegar komnar til Afganistans, ásamt fulltrúum fjölmiðla sem verða með í för.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert