Dýrt skólakerfi en launin lág

Íslenska skólakerfið kostar meira á hvern nemanda en skólakerfi í flestum öðrum OECD-ríkjum. Hérlendis eru laun starfsfólks dýrasti liðurinn, hvort sem um er að ræða grunn-, framhalds- eða háskóla. Almennt er hægt að miða við að laun séu um tveir þriðju af kostnaðinum, skv. upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytinu.

Þó eru laun íslenskra kennara með því lægra sem gerist innan OECD, sé miðað við landsframleiðslu. Þetta vekur upp spurningu um hvað af peningunum verði.

Of margt starfsfólk í skólum?

Í skýrslu OECD um Ísland, sem út kom árið 2006, kemur fram það álit of margir kennarar starfi í skólum landsins og er mælt með því að þeim verði fækkað.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, dregur í efa að sanngjarnt sé að miða Ísland við önnur OECD-ríki, m.a. vegna dreifbýlisins. „Svona samanburður er oft mjög sérstakur. Varðandi fækkun á kennurum myndi ég gjarnan vilja hitta þann einstakling sem komst að þessari niðurstöðu. Það er mjög einfalt að leggja til að fækka kennurum, eðlilegra væri að skoða skólana sjálfa og benda á hverjir séu ofmannaðir,“ segir Eiríkur.

Kostnaður skólanna aukist

„Á undanförnum árum hefur kostnaður í skólakerfinu aukist vegna ýmissa stefnubreytinga, svo sem einsetningar grunnskóla og lengingar skólaársins. Jafnframt er kennt í fleiri stundir nú en áður, kennsluskylda kennara hefur minnkað, stjórnendum fjölgað og farið er að veita hærri fjárhæðir til sérúrræða,“ segir Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Starfsfólki fjölgað um 45%

Hérlendis hefur það verið meðvituð stefna í íslenskum grunnskólum að fjölga starfsfólki, sem hefur skilað sér í 45% fjölgun á undanförnum áratug. Nemendum hefur þó aðeins fjölgað um rúm 3% á sama tíma, skv. upplýsingum frá Þórði .

„Jafnframt er kennsluskylda íslenskra kennara með því lægsta sem gerist innan OECD,“ segir hann.

Á undanförnum árum hefur kennurum fjölgað talsvert en þeir voru rétt rúmlega þrjú þúsund fyrir um áratug en orðnir tæplega 3800 árið 2006.

Þá hefur það verið stefnan að ráða fleiri sérkennara sem sést á því að fjöldi þeirra hefur meira en tvöfaldast á tímabilinu (úr 185 árið 1998 í 455 árið 2006). Að auki hefur verið ráðið í ýmis ný störf, t.d. voru á þriðja hundrað deildarstjórar starfandi í grunnskólum landsins árið 2006 en enginn sinnti því starfi árið 1998, skv. skólaskýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga (2007). Að lokum hefur starfsfólk verið ráðið í störf félags- og skólaliða svo eitthvað sé nefnt.

Margir fámennir skólar

Þar sem greiða þarf fyrir húsnæði og ýmsan búnað fyrir hvern skóla, auk launanna sjálfra, er ljóst að kostnaðurinn er meiri á hvern nemanda eftir því sem skólinn er fámennari.

Árið 2004 var rúmlega helmingur skóla landsins með tvö hundruð eða færri nemendur og einn af hverjum fimm skólum með nemendur undir fimmtíu, skv. stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Jöfnunarsjóði sveitarfélagana. Því er kostnaður sveitarfélagana, sem reka grunnskólana, mjög breytilegur en hann nam frá 528 þúsundum upp í 3,4 milljónir á hvern nemanda það ár, skv. Ríkisendurskoðun. Þá skal taka fram að hlutfall kennaramenntaðra kennara á móti ófaglærðum er mjög mismunandi eftir landsvæðum. „Dæmi eru um að nær allir kennarar skóla séu leiðbeinendur og eins að allir hafi kennaramenntun,“ segir í skýrslunni. Þetta getur skipt máli því að kennarar eru á hærri launum en ófaglærðir.

Fjöldi nemenda á hvern kennara hérlendis er undir meðaltali OECD, eða 11,3 á móti 13,8 og bekkirnir eru minni. Þó er vert að hafa í huga að hér draga fámennir bekkir á landsbyggðinni meðaltalið niður, auk þess sem eitthvað er um einstaklingskennslu. Jafnframt er bekkjum skipt upp í ákveðnum greinum.

Hægt að fækka skólum?

Þegar rætt er um kostnað í skólakerfinu og leiðir til að hagræða, kemur stundum upp sú hugmynd að fækka skólum. Grunnskólum landsins hefur reyndar fækkað á undanförnum árum, m.a. vegna sameiningar sveitarfélaganna. Búast má við að sú þróun haldi áfram.

„Það er stefnan að halda landinu í byggð og jafnframt að börn geti sótt skólann í sinni heimabyggð. Við því má að mínu viti ekki hrófla. Ég get ekki séð hvar mætti fækka skólunum eins og er en þó gætu forsendur breyst, t.d. með samgönguúrbótum,“ segir Eiríkur.

Í hnotskurn
Hérlendis voru reknir 173 grunnskólar árið 2006, þar af var 101 utan höfuðborgarsvæðisins. Nemendur voru 43875 sama ár, svo að í landinu var einn grunnskóli fyrir hverja 253 nemendur. Heildarkostnaðurinn var um 41 milljarður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert