Ingibjörg Sólrún í Afganistan

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/Frikki

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kom í dag til Afganistans þar sem hún mun skoða þau verkefni sem Íslendingar taka þátt í auk þess að hitta afganska ráðamenn. Á fyrsta heimsóknardegi sínum tók ráðherra þátt í móttöku í höfuðstöðvum ISAF í Kabúl fyrir fulltrúa frá alþjóðasamfélaginu í Afganistan, m.a. fulltrúum frá Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Alþjóðabankans og Rauða krossinum auk fulltrúa mannréttindasamtaka og félagasamtaka sem Íslendingar hafa starfað með á svæðinu.

„Í samtölum við fulltrúa þeirra mannúðar- og félagasamtaka sem hér eru að störfum kom fram að þeir telja sig ekki geta starfað í Afganistan ef hér væru ekki alþjóðlega öryggissveitir,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Spurð hvort sér þætti ógnvekjandi að dvelja í Afganistan á sama tíma og frá landinu berast fréttir af átökum og sjálfsmorðssprengjuárárum svarar Ingibjörg því neitandi. „Auðvitað er maður alveg meðvitaður um að það eru hér hættur sem maður þarf að búa sig undir og reyna að forðast,“ segir Ingibjörg og bætir við að sér finnist aðdáunarverðast að hitta allt það hæfa fólk sem vinni fyrir hin margvíslegu félagasamtök, mannúðarsamtök og ríkisstjórnir, af fúsum og frjálsum vilja af því það hafi svo mikla löngun til þess að sjá að hlutirnir geti færst til betri vegar í Afganistan.

„Þetta er gríðarlega öflugt, hæft og vel menntað fólk sem ég hitti hér í kvöld. Við getum verið mjög stolt af Íslendingum sem eru að starfa hérna, því þetta er kraftmikið og kjarkmikið fólk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert