Geir: Þurfum að fara varlega

Ekki hefur verið ákveðið að grípa til aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar til að sporna við því ástandi sem hefur skapast vegna lækkunar á gengi krónunnar. „Ég tel nú ekki að við þurfum að búa okkur hér undir langvarandi kreppu eða neitt slíkt. En við þurfum að fara varlega,“ segir forsætisráðherra.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag að menn hefðu lengi talið að gengi krónunnar væri of hátt og búast mætti við lækkun. Lækkunin nú væri hins vegar nokkuð snörp og það ætti eftir að koma í ljós hvort um væri að ræða svonefnt yfirskot.

„Það sem nú er að gerast [...] er endurspeglun á gríðarlega stórum atburðum úti í heimi, þar sem einn af stóru fjárfestingabönkunum í Bandaríkjunum riðaði til falls. Og það hefur auðvitað haft áhrif um allan heim,“ sagði Geir.

„En auðvitað sjáum við ekki fyrir endann á þessu ennþá, og vitum ekki hvort að hér er um að ræða eitthvert yfirskot [...] eða hvort botninum sé náð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert