Engu hægt að breyta með talinu einu

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni að  „masarar" hafi sett allt of mikinn svip á Evrópuumræðurnar síðustu vikur og látið eins og með talinu einu sé unnt að breyta einhverju. „Það gerist auðvitað alls ekki," segir Björn. 

Björn segist leggja meira upp úr því, að menn séu doers í stjórnmálum en talkers. „Ef menn vilja ná árangri, verða þeir að taka til hendi í stað þess að tala út í eitt," segir Björn, sem segist í dagbókarfærslu í dag lítast best á að að nota orðin gerendur og masarar um þessar skilgreiningar.

Síðustu daga hefur verið nokkur umræða á bloggsíðum um sjónvarpsþáttinn Mannamál á Stöð 2 þar sem Björn var gestur Sigmundar Ernis Rúnarssonar. Þar sagði Björn m.a. að það vantaði vegvísi í samskiptum Íslands við Evrópusambandið í stað þess að menn væru endalaust að tala um málið. 

Björn segir í pistli á heimasíðu sinni í gær, að hann hafi  með þessum ummælum verið að undirstrika muninn á milli talkers og doers. Vegvísir segi Íslendingum hvað þurfi að gera til að komast á leiðarenda og slíkur vegvísir sé dreginn í skýrslu Evrópunefndarinnar, sem Björn veitti forstöðu og skilaði skýrslu á síðasta ári. 

„Þar er alls tíundað, sem nauðsynlegt er að gera til að búa Ísland undir aðild að Evrópusambandinu, þótt nefndin hafi, trú umboði sínu, ekki gengið lengra í tillögum sínum en þar segir. Skýrslan snýst hins vegar ekki um aðildina eða efnislega þætti þess, sem þarf að gera innan lands, áður en formlegt og pólitískt skref er stigið í átt til hennar," segir Björn.

Heimasíða Björns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert