73% yfirmanna ríkisstofnana jákvæðir gagnvart flutningi opinberra starfa út á land

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefur nú í þriðja sinn gefið út samanburðarskýrslu um fjölda starfa á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu og Eyjafirði. Úttektin sýnir enn og aftur hve hallar á Eyjafjörð í þessum efnum og lítið hefur breyst milli ára frá árinu 2003. Á meðan ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað um 3.000 manns á höfuðborgarsvæðinu hefur ríkisstarfsmönnum fjölgað um tæplega eitt hundrað. Ef hlutföllin ættu að vera jöfn þá hefði ríkisstörfum átt að fjölga um 300 á Eyjafjarðarsvæðinu á sama tíma. 

 

Í þetta sinn var einnig gerð könnun meðal yfirmanna ríkisstofnanna. Samkvæmt úttektinni voru um 73% af yfirmönnum stofnana ríkisins jákvæðir gagnvart því að flytja hluta starfa á vegum hins opinbera af höfuðborgarsvæðinu og út á land. Aðeins um 15% þeirra voru neikvæðir gagnvart slíkum flutningi.  

 

Einnig var kannað hversu hátt hlutfall starfa á vegum ríkisins væru þess eðlis að þau væri hægt að vinna hvar sem er. Fram kom hjá yfirmönnum ríkisstofnana að þau reyndust 10 eða fleiri í 28% stofnana á vegum ríkisins og 3-9 störf í 25% stofnana. Aðeins 19% ríkisstofnana reka starfsemi þar sem ekkert starf er fyrst og fremst unnið við tölvu eða í gegnum síma. Einnig kom fram að í stærstu stofnunum ríkisins er þetta hlutfall enn hærra eða nær 60%.

Byggðaáætlanir síðustu áratuga hafa lagt áherslu á að störf á vegum ríkisins byggist ekki einungis upp á höfuðborgarsvæðinu heldur verði dreift um landið og síðustu byggðaáætlanir hafa lagt áherslu á að efla Eyjafjarðarsvæðið til mótvægis við höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt þessari úttekt er fátt um efndir, að sögn Magnúsar Þórs Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. „Staðan hefur nákvæmlega ekkert breyst undanfarin ár, þrátt fyrir mikla uppbyggingu Háskólans á Akureyri á þessum tíma, enda veldur sú stofnun ein og sér nær alveg þeirri fjölgun ríkisstarfa sem þó hefur orðið á svæðinu,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir ennfremur: „Oft er talað um, að þrátt fyrir að stjórnmálamenn séu allir af vilja gerðir til að færa til störf, þá sé tregða í embættismannakerfinu til að gera það. Úttekt AFE staðfestir að svo er ekki, þar sem nær ¾ yfirmanna ríkisstofnana eru jákvæðir gagnvart flutningi starfa frá höfuðborgarsvæðinu og út á land. Við hljótum því að spyrja; hvar liggur tregðan í raun og veru?“

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert