Geir segir Dag fara með rangt mál

Þjóðarleikvangurinn í Laugardal.
Þjóðarleikvangurinn í Laugardal. mbl.is/Árni Sæberg

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir að Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, fari með rangt mál er hann segir að honum hafi ekki verið kunnugt um fyrr en nýverið að kostnaður við framkvæmdir nýrrar áhorfendastúku Laugardalsvallar hafi farið fram úr upphaflegri áætlun.

Þetta kemur fram í bréfi sem Geir hefur sent Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra Reykjavíkur. Geir segir að Dagur, sem átti sæti í byggingarnefndinni, hafi setið báða fundi nefndarinnar, en þar „voru teknar afdrifaríkustu ákvarðanir verksins sem réðu mestu um þann kostnað sem á það féll, þ.e.a.s. samningur KSÍ við Ístak [sem átti lægsta tilboð í verkið],“ segir í bréfinu.  „Á hvorugum fundinum mótmælti Dagur samningnum við Ístak eða taldi þörf á að sækja frekari heimildir til borgarráðs,“ segir ennfremur í bréfi Geirs til borgarstjóra.

Geir segir að á fundi byggingarnefndar 3. apríl 2006, sem Dagur hafi setið, hafi undirritaður samningur við Ístak verið lagður fram. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við samningsupphæðina, 986,2 milljónir kr. Geir bendir á að sú upphæð sé 207,2 milljónum kr. hærri heldur en upphafleg áætlun [frá júlí 2005] gerði ráð fyrir. Hann segir að Dagur hafi óskað eftir að fá sendan lista yfir þá kostnaðarliði sem hefðu lækkað frá upphaflegu tilboði Ístaks (úr 1.155,2 milljónum kr. í 986,2 milljónir kr.) og hafi það verið gert.

 „Öllum nefndarmönnum mátti því vera kunnugt um þessa breytingu frá upphaflegri áætlun upp á 207,2 milljónir króna. Hvernig getur Dagur B. Eggertsson fullyrt nú á opinberum vettvangi að 3. apríl 2006 hafi verkið verið á áætlun þegar samið hafði verið við Ístak um verkþátt upp á 986,2 milljónir króna sem upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir að hljóðaði upp á 779 milljónir króna? Við því höfum við ekki svar en okkur er hins vegar kunnugt um að embættismenn borgarinnar höfðu í höndunum eigi síðar en 21. mars 2006 endurskoðaða áætlun sem tók mið af samningi Ístaks,“ segir í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert