Fagnar Þróunarfélagsskýrslu

Gamla varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli.
Gamla varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli.

Magnús Gunnarsson, formaður stjórnar Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., segir að með stjórnsýsluúttekt sinni hafi Ríkisendurskoðun staðfest að félagið hafi staðið í einu og öllu rétt að málum. Því sé hann mjög sáttur og hann fagnar útkomu skýrslunnar.

Ríkisendurskoðun sendi í gær frá sér stjórnsýsluúttektina Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. Þar kemur meðal annars fram að Þróunarfélaginu hafi verið fyllilega heimilt að selja eignir ríkisins á fyrrverandi varnarliðssvæði á Keflavíkurflugvelli án aðkomu Ríkiskaupa og því hafi ekki borið skylda til að bjóða þær út. Fasteignirnar hafi verið auglýstar með fullnægjandi hætti og hagsmuna ríkisins verið gætt við ráðstöfun eigna á svæðinu.

Magnús Gunnarsson segir að skýrslan undirstriki það að Þróunarfélagið hafi staðið í einu og öllu að málum eins og því hafi verið falið að gera. Það hafi haft fullt umboð til þess að selja eignirnar og tekið þeim tilboðum sem skynsamlegt hafi verið að taka.

Í skýrslunni segir að í samþykktu kauptilboði Háskólavalla ehf. í fasteignir fyrir um 14 milljarða króna sé ákvæði þess efni að Þróunarfélagið greiði Háskólavöllum tæplega tvo milljarða fyrir að annast nauðsynlegar breytingar á rafmagni fasteignanna. „Ríkisendurskoðun telur að vegna umfangs þessa verkefnis og útfærslu á endurgjaldi fyrir það hafi Þróunarfélaginu borið að efna til útboðs um framkvæmd þess.“

Magnús segir að það sé sjónarmið hvernig meta eigi þennan þátt sem snúi að rafmagninu. Það hafi verið sjónarmið stjórnarinnar í samningnum við Háskólavelli að það hentaði hagsmunum ríkisins mun betur að væntanlegir eigendur félagsins sæju um þessar rafmagnsbreytingar. Með því hefði stjórnin jafnframt talið að verið væri að firra ríkið ákveðinni ábyrgð og áhættu á því hvernig hlutirnir myndu þróast. Í því sambandi mætti benda á að verulegar hækkanir hefðu orðið síðan, bæði launahækkanir og hækkanir vegna gengisbreytinga. „Ég er nú þeirrar skoðunar að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá okkur.“

Ríkisendurskoðun telur eðlilegt að stjórn Þróunarfélagsins takmarki óvenju víðtækt umboð framkvæmdastjóra félagsins til að skuldbinda það og tryggi þannig að stjórnin komi að öllum meiri háttar ákvörðunum.

Magnús segir að þarna gæti örlítils misskilnings. Þess hafi sérstaklega verið gætt að fara mjög formlega í þetta umboð og því hafi verið þinglýst eftir að það hafi verið samþykkt. Það hafi fyrst og fremst verið gert til þess að auðvelda starfið, því mikil vinna við skrásetningu og frágang allra pappíra hafi fylgt því að taka allar þessar eignir inn í hið formlega íslenska kerfi. Stjórnin hafi staðið á bak við allar ákvarðanir félagsins, en framkvæmdastjóra hafi verið falið að ganga formlega frá skjölum tengdum þessum formlegu ákvörðunum stjórnarinnar. Hann hafi því ekki haft opna heimild til þess að skrifa undir hvað sem var og hafi alls ekki gert það heldur aðeins skrifað undir skjöl sem stjórnin hafi samþykkt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert