Höfn í Bakkafjöru vanhugsuð

Líkan af fyrirhugaðri Bakkafjöru.
Líkan af fyrirhugaðri Bakkafjöru. mbl.is/Ásdís

Magnús Kristinsson, kaupsýslumaður í Vestmannaeyjum, skrifar grein í Eyjablaðið Fréttir í dag þar sem hann varar við því að byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru. Segir hann þá framkvæmd vera vanhugsaða og skili Eyjamönnum ekki því öryggi og þeim samgöngu­bótum sem þeir þurfi á að halda.

„Fróðir menn segja mér að erfitt verði að koma upp öruggri höfn í Bakkafjöru og þó það takist styttir það ekki ferðatíma með ásættanlegum hætti. Í Bakkafjöru eigum við enn ófarna um 120 km til Reykjavíkur. Ferða­tíminn milli Reykjavíkur og Vest­mannaeyja verður þá aldrei undir tveimur til tveimur og hálfri klukku­stund. Kostnaður er ekki lítill, að þurfa að keyra langt austur á Rang­árvelli til þess eins að komast í skip.

Ég skora á Eyjamenn að flykkja sér um þá hugmynd sem lengi hefur verið á floti, að byggja upp nýju hafskipahöfnina utanvert við Eiðið; viðlegukant sem geti tekið við stærstu skipum. Þessi höfn myndi stytta ferðatímann úr Eyjum í land um 15 mínútur," segir Magnús m.a.

Segist hann ekki í vafa um að endurbætur á höfn í Vestmannaeyjum myndu nýtast langt um betur en höfn í Bakkafjöru. „Þarna gæti orðið nýr viðkomustaður skemmtiferðaskipa og þannig örvað ferðaþjónustu hér. Við yrðum ekki lengur háð því, að einungis minni frakt­skip geti komið til Vest­mannaeyja. Öflugur og hraðskreið­ur Herjólfur er eðlileg krafa Eyja­manna og í nauðsynlegum hafn­arbótum í Eyjum felst fram­tíðar­lausn, öndvert við hugmyndina um höfn í Bakkafjöru. Þar er stefnt í strand."

Grein Magnúsar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert