Framsóknarmenn hafa áhyggjur af stöðu íslenskra heimila

Stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur lýsir yfir áhyggjum af stöðu íslenskra heimila í þeim ólgusjó er nú gengur yfir fjármagnsmarkaðinn hér á landi, í ályktun sem stjórnin hefur sent frá sér.

„Svo virðist sem ríkistjórnin hafi látið Seðlabanka Íslands eftir stjórn efnahagsmála á Íslandi. Nýjustu aðgerðir Seðlabanka Íslands koma bönkunum til góða en vinna á móti nýgerðum kjarasamningum. Niðurstaðan er sú að heimilin borga fyrir bættan efnahag bankanna, sem aftur nýtist til að standa við erlendar skuldbindingar þeirra vegna þátttöku í útrásarverkefnum undanfarinna ára.

Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í þessu ástandi er í hrópandi mótsögn við upplifun almennings. Við íslenskum heimilum blasir stórfelldur kostnaðarauki vegna afborgana lána af húsnæði, rekstri fjölskyldubílsins og við innkaup á allri mat- og rekstrarvöru.
 
Stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur spyr um aðgerðir á húsnæðismarkaði. Við stórfelldan samdrátt á húsnæðismarkaði stöðvast mörg hjól atvinnulífsins er þjónusta bygginga- og húsnæðismarkaðinn.

Framsóknarfélag Reykjavíkur auglýsir eftir efndum núverandi félagsmálaráðherra á aðgerðum á húsnæðismarkaði sem talað var um við myndun þessarar ríkisstjórnar. Aðgerðaleysi félagsmálaráðherra er í anda vinnubragða þessarar ríkisstjórnar, sem kennir sig sjálf Þingvelli, en réttast væri að kenna við strútinn sem stingur hausnum í sandinn þegar hætta steðjar að," samkvæmt ályktun stjórnar Framsóknarfélags Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert