Stjórnklefi Gullfaxa varðveittur í Flugsafninu á Akureyri

Gullfaxi Flugfélags Íslands, Boeing 727, fyrsta þota í eigu Íslendinga …
Gullfaxi Flugfélags Íslands, Boeing 727, fyrsta þota í eigu Íslendinga kemur til landsins í júní 1967. Morgunblaðið

Stjórnklefi Gullfaxa, fyrstu farþegaþotu Íslendinga, hefur verið keyptur af fyrirtækinu Avion Aircraft Trading og verður varðveittur á Flugsafni Íslands á Akureyri. Vonað er að stjórnklefinn verði kominn á safnið í júní - en 24. júní verður 41 ár frá því vélin kom fyrs til Íslands. 

„Við erum búnir að ganga frá því að við kaupum stjórnklefann, þ.e.a.s. fremsta hlutann af vélinni,“ segir Hafsteinn Hafsteinsson, stjórnarformaður Avion Aircraft Trading í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins. Félagið er einn styrktaraðila Flugsafns Íslands á Akureyri. Samningar um kaupin hafa verið undirritaður og verður stjórnklefinn fluttur í heilu lagi til landsins til varðveislu á safninu fyrir norðan.

Eins og fram hefur komið verður Gullfaxi rifinn í Roswell í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum. Hafþór og fleiri hafa um skeið unnið að því að fá vélina hingað til lands til varðveislu og féllst eigandi vélarinnar á það í byrjun mars fresta niðurrifinu.

Unnið verður að því á næstu fjórum til fimm vikum að klippa stjórnklefann af skrokknum og undirbúa flutning hans með skipi til Íslands. Ætlar Hafþór að fara til Roswell í byrjunn maí til að fylgjast með lokafrágangi fyrir flutninginn. Hann segir að hópur góðra manna hafi gefið loforð um að taka þátt í að fjármagna kaupin og þau mál séu nú í höfn. Kaupverð stjórnklefans er um 40 þúsund dollarar (rúmar 3,1 milljón ísl. kr.) en þá er ótalinn umtalsverður kostnaður við flutning hans frá Houston til Akureyrar.

Hafþór segir að gera þurfi endurbætur á mælitækjum í stjórnklefanum og færa hann til upprunalegs horfs. Það verði gert í Bandaríkjunum. „Þá verður hann nákvæmlega eins og hann var þegar vélin kom til landsins 1967.“

Nánar í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert