Kraumandi óánægja kaupmanna

mbl.is

Frank Michelsen úrsmíðameistari sagði sig í dag úr stjórn Miðborgar Reykjavíkur, félagi hagsmunaaðila á svæðinu og Reykjavíkurborgar. Hann segir kraumandi óánægju meðal verslunarmanna á Laugavegi vegna hringlandaháttar borgarstjórnar og áhugaleysis á miðborginni. Hann telur algeran trúnaðarbrest á milli kaupmanna í miðborginni og pólítískra fulltrúa.

„Ég er mjög óánægður með framgöngu borgarfulltrúa í málefnum miðborgarinnar og tel ásamt fleirum kaupmönnum að okkur, sem eiga lífsafkomu okkar undir að rétt sé á málum haldið í miðborginni, hafi verið fórnað í pólítískum hráskinnsleik stjórnmálanna sem hverri annari skiptimynt,“ segir í tilkynningu sem Frank sendi frá sér síðdegis.

Þar segir ennfremur: „Kraumandi óánægja er á meðal verslunarmanna á Laugavegi vegna hringlandahátts borgarstjórnar og áhugaleysis þeirra á miðborginni. Allt tekur of langan tíma og fátt stenst. Borgin selur eignir sem fjarlægja á vegna uppbyggingar en stoppar síðan allt af. Reyna síðan að koma „hreysavæðingunni“ yfir á uppbyggingaðila sem ekki mega fjarlægja hús vegna vöntunar á samþykktum teikningum sem ekki fást samþykktar hjá skipulagi, jafnvel vegna persónulegs smekks starfsmanna þar.“

Frank Michelsen spyr í framhaldi þessa: „Hversu trúverðugt er þegar varaformaður húsfriðunarnefndar, Pétur H. Ármannsson er jafnframt stjórnarmaður í Torfusamtökunum?“

Frank bendir á að upp undir tuttugu verslunarpláss standi yfirgefin við Laugaveg.

Hann segir veggjakrot og glerbrot áberandi og sóðaskap fyrir augum vegfarenda. „Útigangsmenn, ofdrykkjumenn og dópistar fara um í flokkum, veitast að vegfarendum og angra verslunarfólk, hræða það og stela vörum. Þetta er algjörlega óviðunandi og óásættanlegt. Ég tel að alger trúnaðarbrestur sé á milli kaupmanna í miðborginni og pólítískra fulltrúa sem kjörnir voru með fögur fyrirheit á vör. Því miður.“

Frank Michelsen segir í tilkynningunni að loks þegar liðnir eru fjórir mánuðir frá síðasta stjórnarfundi Miðborgar Reykjavíkur sé stjórnarfundur settur á þann tíma sem hann hafi látið formann félagsins vita í tölvupósti þann 14. mars s.l. að hann yrði erlendis.

„Mér þykir afar slæmt að eini fulltrúi þeirra sem lífsafkomu sína eiga undir rekstri fyrirtækis eingöngu í miðborginni og er í stjórn Miðborgar Reykjavíkur, skuli ekki geta komist á stjórnarfund félagsins sem styðja á við bak okkar. “

Hann segir einnig að í fundarboði næsta fundar sé hvergi nefnt að taka eigi umræðu um ástand miðborgarinnar, þrátt fyrir mikla og afar neikvæða umræðu í fjölmiðlum og á meðal fólks. „Þykir mér það lýsa áhugaleysi og sinnuleysi pólítískra fulltrúa sem gæta eiga og sinna hagsmunum allra, ekki eingöngu rómantískum hugmyndum Torfusamtakanna og húsfriðunarsinna sem beita oft á tíðum vafasömum aðferðum í málflutningi sínum vægast sagt. Sýnist mér að borgaryfirvöld ætli sér ekki að leita eftir áliti þeirra sem hagmuna hafa um framtíð miðborgarinnar. Er nú svo komið að mér líst illa á að nafn mitt og fyrirtækis míns tengist þeim vinnubrögðum sem borgarstjórn viðhefur í málefnum miðborgarinnar þar sem ég ásamt öðrum, þrátt fyrir setu í stjórn Miðborg Reykjavíkur, er í raun algerlega hundsaður hvað varðar framtíð miðborgarinnar.“

Úraverslun og úrsmíðavinnustofa Michelsen er á þessu ári 99 ára og þar af hefur fyrirtækið starfað í miðborg Reykjavíkur síðan 1943 eða í 65 ár. „Met ég orðspor mitt og fyrirtækis míns of mikilvægt til að taka þátt í þessum darraðardansi stjórnmálanna. Ég kom til að starfa af heilindum fyrir verslunina á Laugaveginum og í miðbænum, þvert á alla pólítík. Ég get ekki tekið þátt í þessu lengur. Ég treysti ekki lengur borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar. Hér með segi ég mig úr stjórn Miðborgar Reykjavíkur. Þakka ég stjórnarfélögum samstarfið,“ segir Frank Michelsen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert