Ferðamenn vilja til Íslands

Búist er við fjölda ferðamanna til landsins í sumar, ekki síst vegna lágs gengis krónunnar. En það, að krónan hafi fallið, er ekki einvörðungu góð frétt fyrir greinina, og miklar sveiflur gjaldmiðilsins eru sagðar verstar af öllu.

„Lækkandi króna hjálpar okkur tvímælalaust,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, spurður um erlenda ferðamenn í sumar. Hann segir ekkert benda til þess að félagið þurfi að hafa áhyggjur. „Þvert á móti er reynslan sú að þegar krónan lækkar gengur okkur betur að selja en annars.“ Hann og fleiri segja hlutina þó geta breyst hratt og líkja stöðunni við kosningar: ekki borgi sig að fagna fyrr en talið er upp úr kössunum.

Það er hagstætt fyrir Icelandair, þegar krónan er svona lág, að 70% allra farþega félagsins koma erlendis frá; stoppa annaðhvort hér eða halda áfram austur eða vestur um. Hlutfallið er reyndar hærra yfir sumartímann, þannig að farþegar sem fara úr landi skipta ekki eins miklu máli þegar dæmið er gert upp.

Heyra má á forsvarsmönnum gististaða að bókanir fyrir sumarið eru ágætar, en þar eins og annars staðar er ekkert öruggt fyrr en gesturinn er kominn hús.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir rót á hugum manna í greininni vegna gengisbreytinga; auðvitað sé ódýrara fyrir útlendinga að koma hingað þegar gengi krónunnar er lágt, en sveiflur gengisins og öryggisleysi sem þeim fylgja séu verst af öllu fyrir ferðaþjónustuna.

Vert er að geta þess að fjöldi útlendinga kemur til starfa í ferðaþjónustunni hér heima á hverju sumri og hafa verið greininni lífsnauðsynlegir síðustu ár vegna ástandsins á vinnumarkaðnum. Gengisbreytingin gæti dregið úr fjöldanum vegna þess að eftir lækkun krónunnar ber fólk minna úr býtum. En á móti má segja að fleiri Íslendingar ættu að fást til starfa nú en t.d. í fyrrasumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert