Gripinn við endurkomu til landsins

mbl.is/Kristinn

Karlmaður á sextugsaldri sem var úrskurðaður í endurkomubann til Íslands árið 2003 var á föstudag stöðvaður í Leifsstöð af tollgæslunni á Suðurnesjum þegar hann reyndi að komast aftur inn í landið. Í kjölfarið hófst rannsókn sem leiddi til þess að karlmaður og kona, par um þrítugt, sem höfðu ferðast með manninum voru einnig handtekin og reyndust þau vera með samanlagt eitt kíló af ætluðu amfetamíni innanklæða.

Þremenningarnir, pólskir ríkisborgarar, voru að koma frá Amsterdam. Konan var með fíkniefnin falin í brjóstahaldara en karlmaðurinn hafði falið þau í nærbuxunum. Fólkið var af Héraðsdómi Reykjaness úrskurðað í gæsluvarðhald til 11. apríl næstkomandi og una þau þeim úrskurði.

Að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, var það árvökull tollvörður sem þekkti manninn þegar hann gekk inn í komusal Leifsstöðvar en maðurinn hafði komið við sögu tollgæslu og lögreglu á flugvellinum áður en honum var vísað af landi brott árið 2003. Jóhann segir handtöku fólksins skýrt dæmi um góða samvinnu tollgæslu og lögreglu.

Ástæðan fyrir endurkomubanninu er sú að maðurinn var árið 2003 dæmdur fyrir innbrot og þjófnaði, m.a. í þjónustumiðstöðina Vegamót á Snæfellsnesi, í félagi við þrjá samlanda sína. Málið vakti töluverða athygli á sínum tíma, einkum fyrir fífldjarfa en þó algjörlega misheppnaða flóttatilraun.

Aðdragandinn var sá að eigandi Vegamóta kom að mönnunum við innbrotið og lögðu þeir þá á flótta á hvítri sendibifreið og óku í átt að Borgarnesi. Við Hítará mætti lögreglan í Borgarnesi bílnum og gaf lögregla merki um að stöðva og sneri síðan lögreglubílnum við og hóf eftirför. Þegar lögregla dró sendibílinn uppi og stöðvaði var hins vegar aðeins einn maður í bílnum en opnar hliðardyr vöktu grunsemdir og fljótlega kom í ljós að þrír þeirra höfðu kastað sér út úr bílnum á ferð. Lögreglan fann fljótlega tvo þeirra þar sem þeir földu sig ofan í skurði. Sá þriðji fannst nokkru síðar en hann hafði kastast ofan í skurð og var bæði slasaður og gegnblautur, hafði m.a. fingurbrotnað og hlotið áverka á hrygg. Í sendibílnum fannst þýfi frá Vegamótum og úr öðrum innbrotum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert