Vilja fella niður neysluskatta

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokks, lagði til á Alþingi í dag að náð yrði fram þjóðarsátt til að vinna á þeim vandamálum, sem steðjuðu að efnahagslífinu vegna samdráttar þjóðarbúskap og erfiðleika í rekstri fjármálastofnana. Guðni lagði m.a. til þess að álög á eldsneyti verði lækkuð og virðisaukaskatts á matvæli felldur niður.

Í tilkynningu frá Framsóknarflokknum segir, að heildartekjulækkun ríkissjóðs vegna afnáms matarskatts nemi um 7 milljörðum króna. Tekjulækkun við að fella niður helming gjalda af eldsneyti geti numið allt að 10 milljörðum á ársgrundvelli. Þá leggur flokkurinn til að stimpilgjöld verði afnumin en heildartekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum voru í fjárlagafrumvarpi til ársins 2008 metnar ríflega 8 milljarða en það sé ríflega áætlað.

Því megi gera ráð fyrir að heildartekjulækkun ríkisins við að sporna við verðbólgu geti losað 18 milljarða króna. Verðhjöðnunaráhrif geti verið umtalsverð eða a.m.k. 3-5%.

Meðal annarra tillagna, sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram, er að Íbúðalánasjóður geti tekið yfir fasteignalán banka, sem eru undir tilteknum fjárhæðarmörkum og þannig komið með félagslegum hætti að vanda tekjulægri hópa í samfélaginu. Ekki yrði um niðurgreiðslu að ræða heldur aðeins fjármögnun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert