Hefur skapað nýja vídd í umfjöllun og miðlun

Skrif Moggabloggara hafa oft komið hreyfingu á samfélagið. Það var …
Skrif Moggabloggara hafa oft komið hreyfingu á samfélagið. Það var í gegnum Blog.is sem sagan af hremmingum Erlu Óskar Arnardóttur á JFK-flugvelli komst í sviðsljósið. Fjölmiðlar hófu í kjölfarið að fjalla um málið, sem fljótlega varð að hápólitísku deilumáli. Á myndinni kemur sendiherra Bandaríkjanna til fundar við utanríkisráðherra vegna málsins.

Þingmenn og mótmælendur, ráðherrar og öryrkjar, trúboðar og trúleysingjar, vinstri- og hægrimenn: hægt er að finna allan pakkann eins og hann leggur sig á Blog.is, eða Moggablogginu eins og flestir kalla þennan vinsælasta bloggvef landsins, sem í dag á tveggja ára afmæli.

Nýjar leiðir til skoðanaskipta

Ingvar Hjálmarsson, netstjóri Mbl.is, segir bloggvefinn ekki aðeins hafa skapað nýjan vettvang, heldur líka nýjar leiðir fyrir lesendur til að skiptast á skoðunum og upplýsingum. Bloggið leyfir ekki aðeins að nota myndir og texta með einföldum hætti, heldur einnig hljóð og myndskeið: „Innan Moggabloggsins hefur svo myndast tengslanet bloggvina, sem vísa hver í annan á síðum sínum og fylgjast vel með hópnum. Við vitum til þess að slíkir bloggvinahópar hafa tekið sig til og hist til að ræða saman, svo vefurinn er að verða meira en bara andlit og orð á skjá, hefur breyst í stórt og lifandi samfélag,“ segir Ingvar um þá þróun sem átt hefur sér stað á bloggvefnum.

Skráðir notendur Moggabloggsins eru í dag tæplega 14.000 talsins og í hverri viku eru um 130.000 heimsóknir á bloggvefi Blog.is. Meðalaldur skráðra notenda er rösklega 34 ár og alls höfðu verið skrifaðar á bloggvefinn 392.471 færsla seinni part dags í gær, eða um 28 færslur á hvern notanda. Við færslurnar hafa svo verið skrifaðar 1.186.465 athugasemdir!

Lesendur taka virkan þátt

Bloggvefurinn tengist öðrum miðlum Morgunblaðsins með margvíslegum hætti: Á bls. 10 í prentútgáfu Morgunblaðsins er fastur liður að birta brot úr því besta sem bloggað hefur verið, á forsíðu Mbl.is er vísað í áhugaverða bloggara, og einnig hafa skráðir notendur þann möguleika að tengja blogg sín við einstakar fréttir: „Lesendur frétta eru ekki lengur aðeins í því hlutverki að taka við upplýsingum, heldur geta nú tekið þátt í umfjölluninni og umræðunum, sent okkur viðbótarupplýsingar um fréttir og tjáð sig um innihald þeirra í bloggum sínum,“ segir Ingvar. „Í bloggunum spinnast svo iðulega langar umræður milli lesenda, þar sem þeir skiptast á skoðunum.“

Nýjar stjörnur í sviðsljósið

Þann stutta tíma sem Blog.is hefur starfað hafa þar orðið til margar blogg-stjörnur: margar þeirra fólk sem fáir þekktu áður en er í dag þekkt í þjóðfélaginu fyrir skoðanir sínar og lífsreynslu.

Ein þessara bloggstjarna er Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is) sem bloggar um fjölskyldulíf sitt og uppátæki einhverfs sonar síns: „Bloggið hefur breytt heilmiklu,“ segir Jóna um nýfundna frægð. „Ég byrjaði að blogga til að reka sjálfa mig út í að skrifa, en ég hafði alltaf ætlað mér að gerast rithöfundur. Í gegnum bloggið hef ég skrifað fullt af smásögum sem ég hefði aldrei gert annars. Þökk sé blogginu hafa tímarit fengið mig til greinaskrifa og fyrir jól er ég væntanlega að fara að gefa út bók.“

Eftirsóttur álitsgjafi

Stefán Friðrik Stefánsson (stebbifr.blog.is) er annar mikið lesinn Moggabloggari, en hann segist hafa byrjað að blogga af einskærri löngun til að tjá sig um þjóðfélag, mannlíf og margt fleira. Eftir að blogg hans fór að vekja athygli hefur Stefán orðið var við að fólk á förnum vegi kannist við hann: „Þetta fólk er oft búið að lesa skrifin, og gefur sig gjarna á tal til að ræða innihaldið,“ segir Stefán, sem einnig er reglulega fenginn til að deila skoðunum sínum í útvarpi sökum bloggfrægðarinnar.

Hjálpar sér og öðrum

Vinsælasti bloggarinn í dag er Áslaug Ósk Hinriksdóttir (aslaugosk.blog.is), sem bloggar m.a. um baráttu dóttur sinnar við krabbamein: „Það hefur hjálpað mér ótrúlega mikið að blogga, og hafa stuðningur og fallegar orðsendingar reynst ómetanleg,“ segir Áslaug. „Einnig fæ ég reglulega póst frá foreldrum langveikra barna sem eru þakklátir fyrir skrifin, eða einfaldlega frá fólki sem lesið hefur bloggið og í kjölfarið byrjað að líta lífið öðrum augum en áður.“

Blog.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert