„Klárlega almannahætta"

Öll umferð var stöðvuð um Hafnarfjarðarveg.
Öll umferð var stöðvuð um Hafnarfjarðarveg. mbl.is/Júlíus

Atvinnubílstjórar hættu aðgerðum á Hafnarfjarðarvegi rétt fyrir klukkan níu í morgun en enn eru talsverðar tafir á umferð í báðar áttir enda tekur tíma að greiða úr flækjunni segir Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn. Hann segir klárlega um almannahættu að ræða vegna aðgerðanna og spurning sé um hvort þær séu brot á almennum hegningarlögum.

Kristján Ólafur segir að lögreglan muni grípa áfram inn í aðgerðir bílstjóranna líkt og hún hefur gert hingað til með því að gera skýrslur sem fara  í hefðbundið ferli líkt og önnur brot á lögum.

„Það er klárlega almannahætta af þessu og það getur varðað við almenn hegningarlög. Þeir eru að taka sér býsna mikla ábyrgð með því að haga sér eins og þeir eru að gera," segir Kristján Ólafur.

Aðspurður um hvort einhverjir verði ákærðir fyrir hlut sinn í mótmælunum segir Kristján Ólafur að það verði að koma í ljós. „Menn verða að átta sig á því að það er verið að brjóta umferðarlög sem og almenn hegningarlög. Þeir eru að skapa almannahættu og það verður tekið á þessu með þeim hætti."

Kristján Ólafur segir að lögregla hafi ekki verið upplýst um frekari aðgerðir af hálfu atvinnubílstjóra en hún fylgist grannt með. Það sé það sem lögregla geti gert við þessar aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert