Undirbúningur álvers á Bakka

Frá borgarafundinum á Húsavík
Frá borgarafundinum á Húsavík mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Alcoa mun síðar í þessum mánuði leggja fram hjá Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka við Húsavík með um 250.000 tonna framleiðslugetu á ári.

Þetta var meðal þess sem kom fram á fjölmennum borgarafundi sem sveitarfélagið Norðurþing stóð fyrir á Húsavík í kvöld, að því er segir í fréttatilkynningu frá Norðurþingi.

Þar segir:

„Á fundinum kynntu fulltrúar Norðurþings, Landsnets, Landsvirkjunar, HRV og Alcoa undirbúning og stöðu mála varðandi fyrirhugað álver á Bakka við Húsavík.

Í máli Bergs Elíasar Ágústssonar, sveitarstjóra Norðurþings, kom fram að undirbúningsvinna fyrir álver á Bakka sé í fullum gangi. Meðal annars sé nýtt svæðisskipulag vegna fyrirhugaðrar nýtingar háhitasvæða í Þingeyjarsýslum í höfn og hafi verið samþykkt af viðkomandi sveitarstjórnum og staðfest af umhverfisráðherra. Í skipulaginu er meðal annars fjallað um verndun og nýtingu háhitasvæða og háspennulínur á öllu skipulagssvæðinu. Forhönnun og frumkostnaðaráætlun vegna stækkunar Húsavíkurhafnar er lokið. Siglingamálastofnun vinnur nú að gerð hafnarlíkans fyrir höfnina. Hjá sveitarfélaginu er nú meðal annars unnið að nauðsynlegum breytingum á staðsetningu iðnaðarlóða í aðalskipulagi og í sumar verður unnið að fornleifarannsóknum á Bakka.

Árni Jón Elíasson hjá Landsneti sagði fyrirtækið hafa lagt fram tillögu að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka. Auk þess sé í undirbúningi að styrkja núverandi meginflutningsnet raforku á Norðausturlandi með það fyrir augum að tengja nýjar virkjanir og álver á Bakka öruggri tengingu við landsnetið.

Árni Gunnarsson hjá Landsvirkjun fór yfir rannsóknir á háhitasvæðunum á Þeistareykjum, í Bjarnarflagi, Kröflu og Gjástykki. Fram kom í máli hans að rannsóknarboranir lofi góðu og niðurstaðna úr þeim sé að vænta um næstu áramót. Mat á umhverfisáhrifum og aðallskipulag er tilbúið fyrir virkjun í Bjarnarflagi, tillaga að matsáætlun fyrir virkjun á Þeistareykjum er til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun og tillaga að matsáætlun fyrir stækkun Kröfluvirkjunar verður kynnt innan skamms.

Kristján Þ. Halldórsson, verkefnisstjóri samfélagsmála hjá Alcoa á Norðurlandi, kynnti stöðu mála fyrir hönd Alcoa. Í máli hans kom fram að Alcoa muni á næstu vikum leggja fram tillögu að matsáætlun fyrir álver á Bakka og hefja rannsóknir á umhverfisáhrifum. Í sumar verður meðal annars unnið að vistfræðirannsóknum, rannsóknum á dreifingu á útblæstri og rannsóknum á samfélagslegum áhrifum álvers. Einnig verður hleypt af stokkunum sjálfbærniverkefni í samvinnu við Landsvirkjun og Landsnet. Þar verður meðal annars horft til fenginnar reynslu af slíku verkefni sem unnið hefur verið að í tengslum við framkvæmdirnar á Austurlandi.

Alcoa vinnur samkvæmt áætlunum um að nýtt álver á Bakka nái fullum afköstum árið 2015. Lokaákvörðun um hvort fyrirtækið ræðst í byggingu álversins mun meðal annars ráðast af niðurstöðum rannsókna á virkjanlegri orku á svæðinu, orkuverði, niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum, hagkvæmniathugunum, tímaáætlunum og markaðsaðstæðum. Hversu mikil virkjanleg gufuorka er á svæðinu og orkuverð mun hafa úrslitaþýðingu varðandi byggingu og stærð álversins.

„Það er mikill áhugi á verkefninu hjá Alcoa og fyrirtækið ætlar að kanna til hlítar kosti þess að byggja næsta álver fyrirtækisins á Bakka. Mat á umhverfisáhrifum er mikilvægur liður í undirbúningsferlinu. Óskastaðan er að í framtíðinni verði næg orka tryggð til að hægt verði að nýta dýrmæta reynslu okkar frá Reyðarfirði til fullnustu með því að byggja álver af sömu stærð og Fjarðaál á Bakka. Þangað til það gerist vinnum við hins vegar eftir þeim upplýsingum sem við höfum um mögulega orku og byggjum matið á umhverfisáhrifum á þeim grunni," sagði Kristján.

Bergur Elías dró saman helstu niðurstöður fundarins í lokin og sagði þá meðal annars: „Hér voru kynnt ný og mikilvæg skref í þá átt að nýta auðlindir Norðausturlands til heilla fyrir íbúa fjórðungsins og landsins alls. Nýtt álver á Bakka verður kærkomin ný undirstaða fyrir atvinnulíf á svæðinu og mikilvæg viðbót í íslenskt efnahagslíf. Álver á Bakka myndi skapa 600 – 700 störf á Norðurlandi, um 1000 störf á landinu öllu og skapa umtalsverð útflutningsverðmæti fyrir þjóðarbúið“.“

Á Húsavík.
Á Húsavík. Hafþór Hreiðarsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert