Börnin veikjast vegna myglusvepps

Gamla varnarsvæðið á Miðnesheiði.
Gamla varnarsvæðið á Miðnesheiði.

„Stelpan mín er ekki orðin tveggja ára en er komin með astmaeinkenni,“ segir Íris Ösp Sigurbjörnsdóttir sem býr í námsmannaíbúðum Keilis á gamla varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Þar hefur fundist myglusveppur í þónokkrum íbúðum.

„Læknirinn sagði að það væri vel þekkt að myglusveppir gætu valdið astmaeinkennum. Á svæðinu er mikið af börnum og þau virðast öll vera meira eða minna veik,“ segir Íris.

Hún segist hafa tilkynnt umsjónarmönnum fasteigna hjá Keili að myglusveppur væri í íbúð sinni fyrir þremur vikum. Henni var sagt að hún yrði sett á biðlista eftir viðgerð, en síðan hefur hvorki verið talað við hana vegna málsins, né hefur nokkur komið til að taka út skemmdirnar.

Hún segir íbúa á svæðinu engar upplýsingar fá um hversu alvarlegt málið sé eða hvort sveppurinn geti verið heilsuspillandi. „Vinkona mín sem býr þarna og á barn sem fékk lungnabólgu, hringdi í fyrirtækið sem er að rannsaka myglusveppinn, en var sagt að ekki mætti segja henni hversu alvarlegt málið væri þar sem fyrirtækið væri bundið þagnarskyldu. Mér finnst hrikalegt að fá engar upplýsingar, sérstaklega þar sem mikið er um börn á svæðinu.“

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá Húsi og heilsu, staðfestir að hún hafi verið kölluð til að rannsaka mögulegan myglusvepp í húsnæði Keilis. „Rannsókninni er ekki lokið og ég get ekki sagt neitt um hana á þessu stigi vegna trúnaðar við viðskiptavini mína.“

Sylgja segir að myglusveppur geti verið til mikilla vandræða og hugsanlega valdið heilsutjóni ef um alvarleg tilfelli er að ræða. Hún tekur fram að Keilir bregðist vel við öllum kvörtunum sem berist.

Fleiri íbúar á Miðnesheiði sem 24 stundir náðu tali af hafa áhyggjur af myglusveppnum og íhuga brottflutning. Þá sögðust þeir hafa heyrt af fleiri börnum sem talið er að hafi veikst af völdum myglusveppsins; sem dæmi hafi ungt barn verið flutt á spítala í gær með sár á lunga.

Í hnotskurn
Myglusveppur herjar á nokkrar námsmannaíbúðir Keilis á gamla varnarsvæðinu. Myglusveppir geta verið heilsuspillandi; t.d. valdið sjóntruflunum og skertu jafnvægi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert