Segja sveppinn ekki hættulegan

Í dag barst Keili niðurstaða úr rannsóknum EMLab á sýnum sem tekin voru úr nemendaíbúð á Vallarheiði þann 28. mars sl. Af tæplega 500 íbúðum í útleigu hefur komið upp galli í u.þ.b. 30 íbúðum vegna galla í einangrun sem veldur sveppagróðri.  Tekin voru sýni íbúð þar sem myglusveppur var og send til rannsóknar í Bandaríkjunum. Niðurstaða rannsóknar á sýninu er að sveppurinn sé ekki hættulegur, að því er segir í tilkynningu frá Keili.

„Í frétt 24 Stunda sl föstudag  undir fyrirsögninni „Börn veikjast vegna myglusvepps“  var því haldið fram að fjöldi barna hefði veikst af þessum völdum og að eitt þeirra hefði verið flutt á sjúkrahús með sár á lunga af sömu orsökum. Fréttin er röng og á ekki við nein rök að styðjast. Blaðið hefur engar forsendur, rök eða staðreyndir fyrir frétt sinni.

Keilir starfar að uppbyggingu á fjölskylduvænni háskólabyggð og leggur ásamt samstarfsaðilum sínum áherslu á að skapa íbúum sínum og börnum þeirra gott og öruggt umhverfi . Velferð barna á svæðinu er stór þáttur í þeirri sýn sem  Keilir hefur sérstaklega lagt áherslu á. Keilir harmar skaðlegan og meiðandi  fréttaflutning 24stunda og mun áfram vinna að uppbyggingu á öruggu, skapandi og fjölskylduvænu umhverfi háskólanema á gamla varnarsvæðinu Vallarheiði," samkvæmt tilkynningu frá Keili .
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert