„Við erum bara sektaðir“

Sturla Jónsson, talsmaður atvinnubílstjóra
Sturla Jónsson, talsmaður atvinnubílstjóra mbl.is/Kristinn

Það eru sannarlega geggjaðar kröfur að ætlast til þess að bílstjórar uppfylli allar kvaðir samgönguráðuneytisins án þess að skapa þeim nokkur skilyrði til þess. „Við erum bara sektaðir,“ sagði Sturla Jónsson, talsmaður atvinnubílstjóra, vegna orða Kristjáns Möller samgönguráðherra um að kröfur atvinnubílstjóra séu „geggjaðar“.

Sturla sagði þær kvaðir vera lagðar á atvinnubílstjóra að þeir mega ekki vinna meira en níu klukkustundir á sólarhring, fimm daga vikunnar og ekki lengur en fjóra og hálfa klukkustund samfleytt. Eftir 4,5 tíma verða þeir að hvíla sig amk. í 45 mínútur. Í bílunum er klukka með skífu sem skráir vinnutímann og ýmsar aðrar upplýsingar. Sturla segir að samkvæmt reglunum eigi bílstjóri að setja klukkuna í gang um leið og hann byrjar að vinna við bílinn. Hann segir þessar reglur ekki vera í neinu samræmi við veruleikann og vinnutíma hér á landi og því ekki hægt annað en að brjóta þær.

Sturla segir að Vegagerðin hafi t.d. ekki gert neitt í því að útbúa hvíldaraðstöðu með snyrtingu fyrir atvinnubílstjóra við vegi landsins. Erlendis séu slíkir hvíldarstaðir með reglulegu millibili við helstu þjóðvegi. Hér er bílstjórum vísað á plön einkaaðila og veitingastaða við þjóðveginn, sem þó eru ekki staðsettir með tilliti til þessara reglna og aðeins opnir hluta sólarhringsins.

Sturla tók sem dæmi bílstjóra á vöruflutningabíl sem ekur út á land frá Reykjavík og byrjar vinnudaginn kl. 8 að morgni. Þá á hann að gangsetja klukkuna. Svo vinnur hann í tvo tíma við að lesta bílinn og leggur af stað um kl. 10. Eftir tvo og hálfan tíma er hann kominn upp á Holtavörðuheiði og samkvæmt reglunum á hann að stoppa og hvíla sig í 45 mínútur. Það skipti engu þótt hann sjái niður í Brú í Hrútafirði og þurfi bæði að komast á snyrtingu og fá sér að borða. Ekki heldur að óvíða sé hægt að stöðva stóran flutningabíl á heiðinni með góðu móti. Láti bílstjórinn sig hafa það að aka niður í Brú eða Staðarskála er hann orðinn brotlegur og má eiga von á hárri sekt og punktum í ökuskírteinið komist upp um brotið. Starfsmenn Vegaeftirlitsins og lögreglan geta stoppað bílinn hvar sem er og lesið af skífunni.

„Þeir sekta okkur og ætla að halda því áfram þótt það sé engin aðstaða til að fara eftir þessum reglum,“ sagði Sturla. „Vegagerðin hefur sagt mönnum að stoppa bara á planinu hjá Jóni Jóns og taka út hvíldina og gera það sem þeir þurfa þar. Við ætlum ekki að gera neitt – bara sekta ykkur.“

Sturla sagði að ríkið færi sjálft ekki eftir Evrópureglum, t.d. um breidd þjóðveganna sem víða séu allt of mjóir og jafnvel vart ökufærir utan hringvegarins. Eins nefndi hann að ákvæði um hvíldartíma ættu t.d. ekki við um strætisvagnastjóra, ökumenn póstbíla, mjólkurflutningabíla eða sorpbíla. Þá bætti Sturla því við að engin ákvæði væru um hvíldartíma alþingismanna. Þeir gætu staðið í pontunni tímunum saman og sett landinu lög eftir langar vökur.

Flutningabílum ekið hægt eftir Kringlumýrarbraut.
Flutningabílum ekið hægt eftir Kringlumýrarbraut. mbl.is/Júlíus
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert